Innlent

Ekki tilefni til afsagnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson segir það sína skoðun að ekki hafi verið tilefni til afsagnar. Mynd/ Stefán.
Ögmundur Jónasson segir það sína skoðun að ekki hafi verið tilefni til afsagnar. Mynd/ Stefán.
„Það er mín persónulega skoðun að ekki hafi verið tilefni til afsagnar, hvorki af hálfu landskjörstjórnar né af hálfu annarra aðila sem önnuðust framkvæmd þessarar kosningar," segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.

Landskjörstjórn sagði af sér nú undir kvöld vegna úrskurðar Hæstaréttar á þriðjudaginn þar sem stjórnlagaþingskosningarnar voru ógilta. Ögmundur segir að um sé að ræða sjálfstæða stjórn sem taki eigin ákvarðanir á eigin forsendum. „Fyrst þetta er þeirra mat þá bera að virða það," segir Ögmundur.

„Ég hef margoft sagt að það sem fór úrskeiðis var samspil margra annnarra þátta. Í fyrsta lagi hef ég horft til Hæstaréttar sem kemst að þessari niðurstöðu á forsendum sem ég tel vera afar umdeilanlegar þótt ég leggi áherslu á að við förum að úrskurði dómsins," segir Ögmundur. Í annan stað hafi veirð brotalamir í löggjöfinni þar sem annars vegar almenn kosningalög og hins vegar lög um stjórnlagaþingið hafi verið misvísandi. „Í þriðja lagi var það framkvæmdin sem var á hendi margra aðila, ráðuneytisins, landskjörstjórnar og sveitarfélaga," segir Ögmundur.

Ögmundur segir að kosningin hafi ekki verið kærð vegna þess að einhver hafi talið að á sér hefði verið brotið. „Heldur vegna þess að samkvæmt yfirlýsingu eins aðila var hann að reyna að finna formgalla á kosningunni og Hæstiréttur fann slíka formgalla og dæmdi alla kosninguna ólöglega sem kom mér verulega á óvart í ljósi almannahagsmuna og með tilliti til lagaumgjarðarinnar og þeirra forsendna sem hann starfar samkvæmt," segir Ögmundur. Hann ítrekar að þótt hann virði niðurstöður Hæstaréttar og véfengi ekki að henni eigi að hlíta þá telji hann hana vera mjög umdeilanlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×