Innlent

Halldór J. settur í farbann

Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hefur verið úrskurðaður í farbann til 25. janúar. Hann kom til landsins í gær frá Kanada, þar sem hann er búsettur, til að gefa skýrslu hjá sérstökum saksóknara. Málið snýst um meinta markaðsmisnotkun stjórnenda bankans um fimm ára skeið í aðdraganda hrunsins. Um tugmilljarða króna er að ræða.

„Allt sem ég hef komið nálægt hef ég gert í fullu samræmi við lög og reglur, það er mín skoðun," sagði Halldór J. þegar hann mætti til sérstaks saksóknara. Yfirheyrslur stóðu fram á áttunda tímann í gærkvöldi en þá var Halldór úrskurðaður í farbann. Friðjón Örn Friðjónsson, lögmaður Halldórs, segir annað ekki hafa staðið til en að vinna með embættinu að rannsókn málsins og því hafi verið fallist á farbannskröfuna.

Sjö fyrrverandi starfsmenn gamla Landsbankans voru yfirheyrðir vegna málsins á fimmtudag í síðustu viku og héldu sex teymi á vegum embættis sérstaks saksóknara yfirheyrslum áfram frá morgni til kvölds á laugardag en eftir hádegi í gær. Þrír til fjórir eru í hverju teymi.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri, sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald til 25. janúar á fimmtudag var yfirheyrður alla helgina en Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Landsbankans, sem sætir gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni fram á fimmtudag var ekki yfirheyrður. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður hans, gerir ráð fyrir að yfirheyrslur haldi áfram í dag.

Fréttastofa Stöðvar 2 sagði frá því í gærkvöldi að í gæsluvarðhaldskröfu yfir Sigurjóni sé hann sakaður um fjársvik, umboðssvik, skilasvik og markaðsmisnotkun sem laut að því að halda uppi gengi hlutabréfa bankans, svo sem með lánveitingum til útvalinna viðskiptavina bankans til kaupa á hlutabréfum bankans með veði í bréfunum sjálfum. Meðal annars er Sigurjón sakaður um að bera ábyrgð á því að veita Georg Tzvetanski, fyrrverandi aðstoðarforstjóra BalkanPharma og stjórnarmanni í Pharmaco, nú Actavis, 4,5 milljarða króna yfirdráttarlán til kaupa á hlutabréfum Landsbankans 30. september 2008, degi eftir þjóðnýtingu Glitnis. Eftir því sem næst verður komist eru sakar­giftir þær sömu yfir öðrum sem yfirheyrðir hafa verið vegna málsins en hlutur hvers mun vera mismikill. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×