Erlent

Sakfelldir fyrir að dæla eitri í Amazon

Mynd/AP

Dómstólar í Ekvador hafa dæmt bandaríska olíurisann Chevron til greiðslu gríðarlegra skaðabóta fyrir að menga stóran hluta Amazon-skóganna í landinu. Olíufélagið unir ekki niðurstöðunni og ætlar að áfrýja dómnum en dómsmálið hefur veltst um í dómskerfinu í nær tvo áratugi. Ljúki málinu á þeim nótum sem dómur féll í gær þarf Chevron að greiða átta milljarða Bandaríkjadala, eða tæplega þúsund milljarða íslenskra króna.

Málið má rekja til olíufélagsins Texaco, sem sameinaðist Chevron árið 2001, sem var kært fyrir að hafa losað milljónir lítra af eiturefnum í pytti og ár í Amazon-skóginum.

Fullyrt er að uppskera yfir þrjátíu þúsund Ekvadora hafi eyðilagst, búpeningur hafi drepist vegna mengunar og eins hafi tíðni krabbameins margfaldast vegna mengunar­innar. Fullyrt er að mengun frá eiturefnaúrgangi fyrirtækisins hafi gott sem eyðilagt stór landsvæði.

Náttúruverndarsinnar vona að málið sé fordæmisgefandi og neyði fyrirtæki í þróunarríkjum til að uppfylla sömu kröfur til umhverfis­mála og á vesturlöndum.

Í tilkynningu frá Chevron er því haldið fram að allur málareksturinn hafi verið ólöglegur og vitnisburður sérfræðinga hafi allur verið undir áhrifum þeirra sem kærðu fyrirtækið í upphafi. - shá








Fleiri fréttir

Sjá meira


×