Innlent

Sprengingar í Hafnarfjarðarhöfn komu fram á jarðskjálftamælum

Verið er að dýpka Hafnarfjarðarhöfn
Verið er að dýpka Hafnarfjarðarhöfn Mynd Heiða
Sprengingar verktaka við Hafnarfjarðarhöfn urðu til þess að skjálftamælar Veðurstofu Íslands fóru af stað og mældu sjálfta upp á 0,7 á Richter.

Dýpkun hafnarinnar stendur yfir en verktakar sprengja ekki meira í dag. Ekki er þó útilokað að fleiri sprengingar eigi sér stað á næstu dögum.

Íbúar í nánasta nágrenni fundu fyrir skjálftanum sem er heldur lítill.

Skylt er að tilkynna Veðurstofu um sprengingar en jarðfræðingur þar hafði enga tilkynningu fengið þegar fréttamaður náði tali af honum. Hann sagði þó hafa komið fyrir að tilkynningarnar berist eftir á, svokallaðar „sprengjuskýrslur."

Þegar mælarnir fóru af stað vissi fólk á þeim bænum því ekki um hvað var að ræða.

Sérfræðingar sáu hins vegar að skjálftinn var mestur á yfirborðinu, eins og algengt er um skjálfta vegna sprenginga, og því var frá upphafi talið líklegt að um byggingaframkvæmdir væri að ræða.

Jarðfræðingur á Veðurstofunni segir að afar sjaldgæft sé að sprengingar séu það stórar að þær mælist á jarðskjálftamælum. Nokkuð hafi borið á því þegar framkvæmdir hafi verið í gangi vegna álversins í Helguvík. Þær spreningingar sáust á mælum og fólk í Reykjanesbæ fann fyrir sjálftum.

Þegar breytingar voru gerðar á Hringbrautinni í Reykjavík fyrir örfáum misserum urðu íbúar í nágrenninu einnig varir við skjálfta þegar sprengt var en þær mældust hins vegar ekki á mælum Veðurstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×