Erlent

Bítill vill að Norðurheimskautið sé látið í friði

BBI skrifar
Bítillinn Paul McCartney um Norðurheimskautið: Let it be!
Bítillinn Paul McCartney um Norðurheimskautið: Let it be!
Grænfriðungar eru að hefja herferð til að fá Norðurheimskautið friðlýst af Sameinuðu Þjóðunum. Stefnt er að því að safna milljón undirskriftum undir yfirlýsingu þar sem farið er fram á að olíurannsóknum og ósjálfbærum fiskveiðum verði hætt á svæðinu.

Ástæðan fyrir þessum róttæku aðgerðum er „hið misheppnaða klúður" sem G20+ fundurinn var að mati Grænfriðunga. Nú þegar hafa fyrstu hundrað undirskriftirnar verið opinberaðar. Meðal þeirra sem skrifa undir eru Bítillinn Paul McCartney, leikstjórinn Pedro Almodovar og leikkkonan Penelope Cruz auk viðskiptajöfra og fleiri listamanna.

Norðurheimskautið er sá heimshluti sem hraðast er að hitna um þessar mundir. Það svæði sem þakið er ís skreppur saman ár frá ári. Grænfriðungar fara fram á að óumhverfisvænar athafnir verði bannaðar á svæðinu og það látið vera, eins og gert var á Suðurskautinu fyrir 21 ári.

Árið 2007 gerður Rússar kröfu um eignarrétt yfir Norðurheimskautinu og köfuðu í því skyni undir ísjakann á Norðurheimskautinu og komu þar fyrir rússneskum fána. Nú stefna grænfriðungar á að kafa með umrædda yfirlýsingu með milljón undirskriftum á sama stað og koma þar fyrir óskinni um að Norðurheimskautið verði friðlýst.

Umfjöllun BBC um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×