Enski boltinn

Gylfi með glæsilegt sigurmark Tottenham

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmark Tottenham er liðið lagði New York Red Bulls í æfingaleik liðanna vestanhafs í kvöld.

Heimamenn komust yfir snemma leiks með marki úr vítaspyrnu og leiddu í hálfleik en lítið sást til Gylfa Þórs í hálfleiknum. Allt annað var þó uppi á teningnum í síðari hálfleik.

Eftir stundarfjórðungsleik jafnaði Gareth Bale eftir sendingu frá Gylfa. Þetta er annað markið sem Gylfi leggur upp fyrir Walesverjann á skömmum tíma og virðast þeir ná vel saman.

Gylfi kom aftur við sögu fimm mínútum síðar. Þá lék hann á einn varnarmann Red Bulls inni á vítateignum áður en hann sendi boltann með föstu skoti efst í markhornið fjær. Frábært mark og lýsendur á ESPN-sjónvarpsstöðinni héldu, skiljanlega, ekki vatni yfir markinu.

Aðeins andartökum síðar átti Michael Dawson, miðvörður Spurs, skot í slá eftir hornspyrnu Gylfa.

Hafnfirðingnum var skipt af velli nokkrum mínútum fyrir leikslok og ekki annað að sjá en André Villas-Boas, knattspyrnustjóri Tottenham, væri ánægður með frammistöðu kappans.

Mark Gylfa má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×