Innlent

Vill að þingmenn fái aðgang að skýrslu um Búsáhaldabyltinguna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Átökin við þinghúsið voru gríðarlega hörð.
Átökin við þinghúsið voru gríðarlega hörð. mynd/ Valli.
Þingmenn ættu að fá aðgang að skýrslu sem Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, vann um Búsáhaldabyltinguna. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, einn af varaforsetum Alþingis, í samtali við Vísi. Hann bar málið upp í forsætisnefnd Alþingis á síðasta fundi nefndarinnar. Geir Jón sagði í fjölmiðlum fyrr á árinu, þegar hann ræddi skýrsluna, að búsáhaldarbyltingunni hafi verið stýrt af sitjandi þingmönnum.

Sigurður Ingi bendir á að upplýsingadeild Alþingis hafi verið falið að afla umræddrar skýrslu, en því var hafnað á þeirri forsendu að um væri að ræða innanhúsplagg lögreglunnar. „Mér finnst mikilvægt að Alþingi fái möguleika til þess að skoða þessa skýrslu þar sem þetta varðar öryggismál þingsins ekkert síður en innanbúðarmál í lögreglunni," segir Sigurður Ingi í samtali við Vísi.

Hann segist hafa lagt fram beiðni á síðasta fundi forsætisnefndar, um að kallað yrði eftir skýrslunni að nýju. Ekki hafi mikil umræða farið fram um það með hvaða hætti yrði kallað eftir skýrslunni, en Sigurður Ingi á von á frekari umræðu á næstu fundum forsætisnefndarinnar.

Sigurður Ingi vill lítið tjá sig um þau orð Geirs Jóns að alþingismenn hafi stýrt Búsáhaldabyltingunni. „Nú veit ég ekkert hvað stendur í skýrslunni en mér finnst mikilvægt að Slþingi fái tækifæri til að sjá skýrsluna og vega og meta sín öryggismál," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×