Innlent

Telur áfengisauglýsingum hafa fjölgað

BBI skrifar
Siv telur að áfengisauglýsingum hafi fjölgað síðustu misseri.
Siv telur að áfengisauglýsingum hafi fjölgað síðustu misseri.
Áfengisauglýsingum hefur fjölgað talsvert í fjölmiðlum landsins að mati Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Hún telur að bjórframleiðendur og innflutningsaðilar hafi verið að færa sig upp á skaftið í auglýsingum og telur brýnt að stöðva þá þróun.

„Það er náttúrlega verið að sniðganga lög með þessum auglýsingum," segir Siv og á þá sérstaklega við auglýsingar á léttöli sem er í eins umbúðum og áfengur bjór. „Í dag er í raun verið að auglýsa áfengan bjór með nánast ósýnilegum stöfum neðst í auglýsingunni þar sem stendur léttöl. Svo það er verið að sniðganga lög. Það er ekki hægt að túlka þetta með neinum öðrum hætti," segir hún.

Siv lagði fram fyrirspurn á Alþingi vegna áfengisauglýsinga á RÚV sem henni finnst hafa aukist talsvert á síðustu misserum. Hún telur vandann þó ekki einskorðaðan við RÚV en fyrirspurnina lagði hún fram eftir að hún sá áfengisauglýsingu á RÚV sem miðaði sérstaklega að ungu fólki. Áfengisauglýsingunni var þá skeytt við auglýsingu á nýjustu Bond myndinni. „Þegar þessi mynd, Skyfall var auglýst, þá var áfengisauglýsing tengd við þá auglýsingu," segir hún. Með því telur hún reynt að höfða til ungs fólks og finnst full langt gengið.

Skýrara bann við áfengisauglýsingum

Um þessar mundir er frumvarp til breytinga á áfengislögum til meðferðar á Alþingi. Með breytingunum á að setja skýrara bann við áfengisauglýsingum. Frumvarpið var lagt fram í fyrra en fékk ekki afgreiðslu. Siv telur að með frumvarpinu sé tekið á vandanum með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt frumvarpinu verður m.a. óheimilt að auglýsa drykki, jafnvel þó þeir innihaldi minna en 2,25% af vínanda ef þeir eru í eins umbúðum og áfengir drykkir. Þannig á að taka fyrir að menn sniðgangi auglýsingabannið.

„Ég tel afar brýnt að þingflokkar sameinist um þessar breytingar," segir Siv og vonar að frumvarpið verði afgreitt frá þinginu í vetur.

Hér má nálgast frumvarpið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×