Innlent

Náttúrufræðistofnun kærir Sæferðir vegna bágborins arnarvarps

BBI skrifar
Örn.
Örn. Mynd/Stefán Karlsson
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur kært ferðaþjónustufyrirtækið Sæferðir fyrir að sigla með ferðamenn upp að arnarhreiðrum á viðkvæmum tíma. Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu.

Arnarvarp gekk illa í ár, sérstaklega við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Þetta er annað árið í röð sem arnarvarp gengur illa á svæðinu. Ein helsta ástæðan er talin sú að kuldakast gerði í maímánuði í vor. Örninn verpir snemma og því er hann viðkvæmur fyrir veðurfari á vorin. Hins vegar telur Náttúrufræðistofnun að ágangur manna hafi haft slæm áhrif. Á vef Náttúrufræðistofnunar er sérstaklega tekið fram að Sæferðir hafi gengið fram með slæmu fordæmi.

Stofnunin sendi nýverið kæru til lögreglunnar á Snæfellsnesi vegna málsins. Það er nú til rannsóknar hjá lögreglu en samkvæmt upplýsingum þaðan hafa Sæferðir látið málið til sín taka og sent greinargerð til að skýra málstað sinn.

Að sögn lögreglu hafa siglingar af þessum toga verið stundaðar lengi og því þykir undarlegt að Náttúrufræðistofnun grípi til aðgerða núna. Einnig þykir undarlegt að fyrirtækið Sæferðir sé eina fyrirtækið sem tekið er fyrir í kærunni enda eru fleiri fyrirtæki á svæðinu sem reka svipaða þjónustu.


Tengdar fréttir

Arnarvarp með slakasta móti

Arnarvarpið var með slakasta móti í ár. Varp misfórst hjá meirihluta þeirra 45 para sem urpu í vor. Helsta ástæðan er að líkindum kuldakastið í maí og truflun af mannavöldum, segir á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×