Innlent

Útlit fyrir metþátttöku í maraþoninu

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Frá Reykjavíkurmaraþoni í fyrra.
Frá Reykjavíkurmaraþoni í fyrra. mynd/ daníel.
Útlit er fyrir metþátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu í ár og eru þátttakendur að hlaupa lengri vegalengdir en áður.

Tæplega sjöþúsund og níuhundruð hlauparar hafa skráð sig til þátttöku nú þegar fjórir dagar eru til stefnu og er það sextán prósenta aukning ef miðað er við sama tíma í fyrra. Flestir kjósa að hlaupa 10 kílómetra eða um þrjúþúsund og áttahundruð, og er það tæplega þrjátíu prósenta aukning frá fyrra ári. Þátttakendum í hálfu maraþoni fjölgar um fimmtán prósent á milli ára og maraþonhlaupurum um tæp tuttugu prósent.

„Það hefur borið á auknum hlaupaáhuga hjá þjóðinni undanfarin ár. Ég held að flestir geti samþykkt það og það sýnir sig í þessu," segir Gerður Þóra Björnsdóttir upplýsingafulltrúi maraþonsins. Rúmlega fimmtán hundruð útlendingar eru skráðir til leiks og er það tuttugu prósenta aukning frá því í fyrra. Hún segir líka að aldrei hafi fleiri útlendingar tekið þátt og þeir séu mikið í lengri vegalengdum.

Tæpar nítján milljónir hafa safnast í áheitum til góðra málefna í tengslum við maraþonið en á sama tíma í fyrra höfðu safnast tæpar sautján milljónir. Hinn tólf ára gamli Viktor Snær Sigurðsson, sem hleypur fyrir systur sína Sunnu og AHC samtökin er sá sem hefur safnað einna mest í einstaklingssöfnuninni, eða rúmri milljón.

Forskráningu á netinu lýkur á morgun klukkan fjögur áhugasamir geta samt sem áður skráð sig á skráningarhátíðinni á föstudag. Útlit er fyrir bjartviðri í Reykjavík um helgina og Gerður segir að það skipti sköpum þegar kemur að skráningu í styttri hlaupin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×