Innlent

Bæjarlögmaður sakaður um að reyna að hafa áhrif á vitni

Bæjarlögmaður Kópavogs, Þórður Clausen Þórðarson, á að hafa lagt til við Sigrúnu Ágústu Bragadóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Kópavogs, um að hún hagaði skýrslugjöf sinni fyrir dómi með þeim hætti að Gunnar I. Birgisson, bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogsbæjar, hefði beitt hræðslustjórnun þegar hann fór með völdin í bænum - og þannig stjórnað öllu ferli sjóðsins.

Þetta kemur fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag, en mál Gunnars og fimm annarra verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjanes næstkomandi föstudag.

Ríkissaksóknari hefur ákært fyrrum framkvæmdastjóra og fimm stjórnarmenn í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Hinir ákærður, auk Gunnars og Sigrúnar Ástu, eru fyrrverandi bæjarfulltrúarnir Flosi Eiríksson og Ómar Stefánsson og svo stjórnarmennirnir Jón Júlíusson og Sigrún Guðmundsdóttir. Ákæran sneri að ólögmætum lánveitingum sjóðsins til Kópavogsbæjar haustið 2008 og meintum blekkingum stjórnarmanna gagnvart Fjármálaeftirlitinu.

Í Morgunblaðinu í dag er því slegið á fast að Þórður hafi lagt til við hina ákærðu að Gunnar hefði með alla þræði málsins og að stjórnarhættir hans hefðu einkennst af hræðslustjórnun (e. terror managment). Þetta á Þórður að hafa sagt á sameiginlegum fundi með hinum ákærðu, utan Gunnars.

Sigrúnu Ágústu á að hafa blöskrað ráðleggingar lögmannsins og hafa því upptökur af fundinum verið sendar til ríkissaksóknara, þar sem Sigrún telur Þórð hafa reynt að hafa áhrif á vitnisburðinn með óeðlilegum hætti.

Þá er fullyrt í Morgunblaðinu að blaðamaðurinn hafi hlustað á upptökuna. Ekki náðist í Þórð þegar eftir því var leitað. Þá vildi hann ekki heldur tjá sig við Morgunblaðið eins og þar kemur fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×