Körfubolti

Lin biður fjölmiðla um að gefa ættingjum sínum í Taívan andrými

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lin var hafnað af tveimur NBA-félögum áður en Knicks tók hann upp á sína arma.
Lin var hafnað af tveimur NBA-félögum áður en Knicks tók hann upp á sína arma. Nordic Photos / Getty Images
Jeremy Lin átti enn einn stórleikinn í nótt í sigri New York Knicks á meisturum Dallas Mavericks. Í viðtölum að leik loknum bað Lin fjölmiðla um að sýna nærgætni gagnvart ættingjum sínum í Taívan þar sem ríkir mikið fjölmiðlafár vegna frammistöðu hans að undanförnu.

„Ég elska fjölskyldu mína og elska ættingja mína," sagði Lin þegar hann var spurður um ömmu sína í Taívan. Hún virðist vera orðin að stórstjörnu í landinu ef marka má spurningu kínversks sjónvarpsfréttamanns á blaðamannafundinum.

„Ég hef eina bón til fjölmiðla í Taívan. Að gefa ættingjum mínum þar í landi andrými því þau komast ekki til vinnu vegna ágengra fjölmiðla og fólks sem eltir þau," sagði Lin og bað um að friðhelgi þeirra yrði virt.

Lin hefur unnið hug og hjörtu körfuknattleiksáhugamanna um allan heim með óvæntri frammistöðu sinni í stöðu leikstjórnanda Knicks. Þá virðist hógværð hans og framkoma utan vallar ekki síður falla í góðan jarðveg almennings og fjölmiðlamanna.

NBA

Tengdar fréttir

Jeremy Lin fór á kostum | Durant skoraði 51 stig fyrir Oklahoma

Jeremy Lin heldur sínu striki hjá New York Knicks í NBA deildinni en nýliðinn skoraði 28 stig og gaf 14 stoðsendingar í 104-97 sigri Knicks gegn meistaraliði Dallas Mavericks í New York í gærkvöld. Þetta var áttundi sigur Knicks í síðustu 9 leikjum. Dirk Nowitzki skoraði 34 stig fyrir Dallas sem hafði unnið sex leiki í röð. Kevin Durant fór á kostum í liði Oklahoma í gær þegar hann skoraði 51 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×