Innlent

Kynntist sjálfum mér upp á nýtt

Stærstan hluta sex mánaða langrar reisu sinnar um heiminn var Halldór Friðrik einn á ferð. Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir sem hann tók á ferðalaginu.
Stærstan hluta sex mánaða langrar reisu sinnar um heiminn var Halldór Friðrik einn á ferð. Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir sem hann tók á ferðalaginu. Fréttablaðið/Vilhelm
Breytingar á högum Halldórs Friðriks Þorsteinssonar urðu til þess að hann lagði upp í sex mánaða langt ferðalag um heiminn og heimsótti sextán lönd, meðal annarra Kína, Indland, Víetnam og Nýja-Sjáland. Kjartan Guðmundsson fræddist um ferðalagið.



„Mig langaði hreinlega til að sjá heiminn og minnka hann aðeins, sem er einmitt það sem svona ferðalag gerir," segir Halldór Friðrik Þorsteinsson, stjórnarformaður og helsti eigandi H.F. Verðbréfa, sem lagði upp í sex mánaða heimshornaflakk í ágúst síðastliðnum. Alls sótti Halldór sextán lönd heim á ferðalaginu, sem hann segir hafa breytt sér á ýmsan máta.



Það besta sem ég hef gert


Hvað kom til að þú ákvaðst að leggja upp í slíkan risatúr um heiminn?

„Mig langaði til að sjá þessi lönd sem ég heimsótti með berum augum og fá nasasjón af þeim þjóðfélögum sem þar eru. Um áramótin fyrir tæpu einu og hálfi ári skipti ég um gír varðandi starf mitt, hætti sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins míns, H.F. Verðbréfa og gerðist þess í stað stjórnarformaður. Ég hafði verið í því látlaust í sjö ár að byggja upp lítið fyrirtæki, sem krefst mikillar orku og ég var orðinn dálítið þreyttur. Þessi breyting á högum mínum varð til þess að ég sá fram á að gerlegt væri að taka mér slíka ferð á hendur og það er líklega það besta sem ég hef gert á ævinni."

Frumbyggjar í Darwin í Ástralíu. Sá til hægri þekkti til Reykjavíkur, eldfjalla og Bjarkar.Mynd/Halldór Friðrik Þorsteinsson
Og hvernig var undirbúningi ferðarinnar háttað?

„Undirbúningur fyrir svona ferðalag krefst nokkurs fyrirvara, því það þarf að fara í sprautur, lesa sér til um væntanlega áfangastaði og ýmislegt fleira. Mér tókst nokkuð vel upp með skipulagninguna, þó ég segi sjálfur frá, með því að ákveða grófan ramma sem bauð upp á svigrúm til breytinga. Fyrst í stað liggur maður í ferðabókum og -síðum á borð við Lonely Planet, en svo tileinkar maður sér smátt og smátt ferðamennskuna og rennur bara á lyktina í lokin. Ég vissi að mig langaði til að upplifa nokkra hluti, til dæmis að sigla niður Yangtze-fljótið í Kína, taka lest þvert yfir Ástralíu og fleira, og hannaði svo ferðalagið í kringum þessa pósta. Ég lagði í hann í lok ágúst til Eystrasaltslandanna og svo til Moskvu, þaðan sem ég tók Síberíulestina í gegnum Mongólíu til Peking. Svo þvældist ég lengi um Asíu, var í Kína í nokkrar vikur og líka Japan, fór til Suður-Kóreu, Indlands, Hong Kong, Víetnam, Singapúr og eyddi svo jólum og áramótum í Balí. Þaðan fór ég yfir til Ástralíu, tók lest frá norðrinu og suður til Adelaide, var í Melbourne og Sidney og þvældist líka um Nýja-Sjáland í þrjár vikur. Ferðalaginu lauk ég svo með því að taka lest þvert yfir Bandaríkin, frá San Francisco til New York, þaðan sem ég flaug heim til Íslands."

Einveran vandist fljótt
Skólastúlkur Í Hiróshima, nálægt sprengipunkti.Mynd/Halldór Friðrik Þorsteinsson
Varstu einn á ferð allan tímann?

„Já, allan tímann fyrir utan að vinur minn hitti mig í Moskvu og var með mér í Síberíulestinni, sem var afar ánægjuleg reynsla. Þetta er lengsta lestarferð heims og hægt er að fara hana á sex dögum í einum rykk, en við ákváðum að kaupa okkur miða sem bauð upp á tólf daga ferðalag með tveimur næturstoppum. Það var mjög gaman að hafa félagsskap í upphafi ferðarinnar, en svo venst það furðufljótt að vera einn á ferð. Eflaust er það afar einstaklingsbundið hvernig einveran leggst í fólk, en ég las mikið og sá margt á leiðinni. Þetta er töluvert langur tími til að ferðast einn og það gerist ýmislegt innra með manni. Maður kynnist sjálfum sér upp á nýtt, rétt eins og maður kynnist fullt af öðru fólki í lestum og í raun hvar sem maður drepur niður fæti. Í rauninni leit ég á einveruna sem áskorun."

Indland áhrifaríkast
Þessi litli Mongóli með tíkarspena sver sig í ætt Gengis Khan.Mynd/Halldór Friðrik Þorsteinsson
Hvað stendur upp úr eftir svo viðamikið ferðalag um heiminn?

„Það er ansi margt og í raun eru allir þessir staðir sem ég heimsótti mjög áhugaverðir. En Indland hreyfði mest við mér og líklega var mesta sjokkið að koma þangað, sjá allar þessar andstæður og gríðarlega litríkt mannlífið. Tíminn sem ég var í Indlandi hafði mest áhrif á mig, þótt hann hafi ekki verið þægilegastur. Svona reynsla fær mann til að endurmeta ansi margt og ég kann betur að meta ýmislegt hér heima á Íslandi eftir ferðalagið. Ég kippi mér ekki upp við það að brauðristin mín bili eftir að hafa sé ungbörn sofa á gangstéttum Mumbai að næturlagi. Umburðarlyndið eykst og í raun og veru er svona ferðalag ígildi góðrar menntunar, því það er örugglega meira þroskandi en maður gerir sér grein fyrir. Eins var magnað að skoða stríðsminjasafnið í Saigon og friðarsafnið í Hiroshima. Ég mæli sterklega með þeim söfnum."

Þú mælir þá líklega með því að allir sem eiga tök á að fara í slíkt ferðalag geri það?

„Já, hiklaust. Það er líka orðið svo miklu einfaldara að ferðast núna. Ég fór í þriggja mánaða reisu fyrir tuttugu árum og þá gat verið strembið að láta vita af sér, en núna gerir maður allt í gegnum netið, pantar öll flug, hótel og útvegar jafnvel vegabréfsáritanir. Þetta er þúsund sinnum þægilegra en það var."

Hefurðu í hyggju að fara aftur í svona ferðalag?

„Já, einhvern daginn vonast ég til þess að geta ferðast til Afríku, þar sem samkvæmið hófst nú til að byrja með, og sjá alla þá fjölbreytni sem sú heimsálfa hefur upp á að bjóða. Mér finnst í raun eins og ég hafi ekkert séð fyrr en ég sé Afríku."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×