Innlent

Fundu sprautur í nágrenni leikskóla

Hlynur Darri Brynjólfsson og Örlygur Sturla Arnarson fundu notaðar sprautur þar sem þeir voru við störf í Hafnarfirði í gær.
Hlynur Darri Brynjólfsson og Örlygur Sturla Arnarson fundu notaðar sprautur þar sem þeir voru við störf í Hafnarfirði í gær. Fréttablaðið/GVA
Notaðar sprautunálar fundust við göngustíg í Hafnarfirði í gær. Í næsta nágrenni við fundarstaðinn eru leikskólinn Arnarberg, Iðnskólinn í Hafnarfirði og íþróttamiðstöðin Björk.

Tveir bæjarstarfsmann sem unnu við slátt og rakstur fundu sprauturnar, þeir Hlynur Darri Brynjólfsson, sautján ára og Örlygur Sturla Arnarson, 19 ára. Þeir voru sammála um að andstyggilegt væri að rekast á svona hluti á víðavangi. „Svo var líka glær vökvi í annarri sprautunni,“ segir Örlygur Sturla.

Göngustígurinn er baka til milli bílskúra en mikil umferð ungmenna vegna nálægðar við skóla og íþróttaaðstöðu. „Já blessaður vertu, hér eru alltaf einhverjir krakkar á ferðinni,“ segir Örlygur. „Skömmu áður en við fundum sprauturnar var hér kona með lítið barn. Það hljóp inn í eina grashrúguna til að sækja fífil, en samt ekki sömu hrúgu og við fundum sprautu í,“ bætir hann við.

Ólafur G. Emilsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir fólk helst eiga að kalla til lögreglu þegar það rekst á sprautunálar og viðlíka hluti. „Við sækjum þetta og setjum í sérstaka dalla,“ segir hann og bætir við að fólk eigi helst að láta vera að koma við þessa hluti.

Lögreglumenn séu hins vegar allir með gúmmíhanska með sér og búnir til að verjast smiti.

„En það er svo sem ekki óalgengt að þetta sé að finnast,“ bætir hann við og segir mikið hringt frá leikskólum vegna muna sem þar finnist, sér í lagi eftir helgar.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×