Vestmannaeyingarnir Hjálmar Guðnason og Ólafur Gränz urðu þann 23. janúar árið 1973 vitni að því þegar gossprungan opnaðist austast á Heimaey og stóðu þeir aðeins um 200 metra frá jarðeldinum. Eftir því sem best er vitað eru þeir einu Íslendingarnir sem séð hafa upphaf eldgoss svo nærri upptökunum.
Hjálmar lést fyrir sjö árum en í blaðaviðtali fyrir tíu árum lýstu þeir saman þessari einstöku lífsreynslu sinni. Í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 í kvöld, strax að loknum fréttum, lýsir Ólafur upphafi eldgossins í fyrsta sinn í sjónvarpsviðtali og hvernig það bar til að Hjálmar vinur hans hringdi eftir langan vinnudag og bað hann að koma með sér í göngutúr um nóttina.
Þeir áttu trillu saman og ætluðu í bryggjulabb og síðan austur að Urðavita. Á leiðinni mættu þeir kunningja sínum, öðrum trillukarli, og spjölluðu við hann nokkra stund. Þessi töf gæti hafa bjargað lífi þeirra því þeir voru komnir á móts við Kirkjubæina þegar gosið hófst skyndilega.
„Allt í einu, eins og hendi sé veifað, þá rifnar bara jörðin fyrir framan okkur," segir Ólafur Gränz í viðtalinu. Ef þeir hefðu ekki tafist telur Ólafur að þeir hefðu annaðhvort verið komnir að Urðavita, og þá lent handan sprungunnar, eða hugsanlega staðið klofvega ofan á henni, og þá ekki verið til frásagnar.
Lýsing Ólafs á upphafi eldgossins verður sýnd klukkan 18.55 í opinni dagskrá á Stöð 2 en í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá Heimaeyjargosinu verða næstu þættir „Um land allt" helgaðir þessum sögulega viðburði. Rætt verður við á annan tug Eyjamanna en þátturinn í kvöld fjallar um upphaf gossins og fyrstu klukkustundir.
Meðal annarra viðmælenda í kvöld er Brynja Pétursdóttir, sem bjó á Kirkjubæ, í því íbúðarhúsi sem næst stóð upptökunum og fyrst brann í gosinu. Urðaviti er talinn fyrsta mannvirkið sem eyðilagðist en Ólafur segir vitann hafa sprungið fljótlega eftir að gosið hófst.