Fótbolti

Ólína: Búinn að vera mikill tilfinningarússibani

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd / Daníel
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir var í byrjunarliði íslenska liðsins í fyrsta sinn á EM þegar stelpurnar töpuðu 0-4 á móti Svíum í átta liða úrslitunum. Ólína var besti maður íslenska liðsins í leiknum en það dugði ekki til.



„Við erum stoltar þrátt fyrir að við höfum tapað stórt. Það er svekkjandi að tapa svona og ég hugsa að það sé ákveðið spennufall í leikmönnum núna og maður er pínulítið tómur eftir allt saman. Þetta er búinn að vera mikill tilfinningarússibani," sagði Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir.



„Við getum gengið sáttar frá mótinu á heildina litið þótt að þessi úrslit í dag séu svekkjandi og alltof stórt tap," sagði Ólína.



„Við slitnuðum alltof mikið í upphafi og vorum ekki að halda skipulaginu sem við lögðum upp með. Þegar það gerist á móti svona liðið þá bara refsa þær. Þær sögðu það fyrir leikinn að þær ætluðu að taka langskotin því þær eru með flotta skotmenn. Þær gerðu það því fyrsta markið kemur með langskoti," sagði Ólína.



„Það heppnaðist allt sem þær lögðu upp með í dag. Þær voru ákveðnari í byrjun en við náðum að þjappa okkur saman og klára þetta betur," segir Ólína.



„Við reyndum okkar besta en það gekk bara ekki upp. Ég held að flestir leikmenn séu hálftómir eftir þennan leik. Við gáfum allt sem við áttum en þær voru betri í dag. Við hlupum og börðumst og reyndum að gera okkar besta. Nú er mótið búið, þetta er búið að vera mikil spenna og frábært mót. Það er í raun svolítið spennufall sem kemur núna. Við þurfum smá tíma til að jafna okkur eftir þetta," sagði Ólína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×