Breski gítarleikarinn Mark Knopfler hefur aflýst tvennum tónleikum í Rússlandi vegna aðgerða yfirvalda gegn mannréttindasamtökum þar í landi.
Knopfler, sem gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Dire Straits á áttunda og níunda áratugnum, átti að koma fram bæði í Moskvu og Pétursborg 7. og 8. júní, en nú er ljóst að ekkert verður af tónleikunum.
Rússnesk yfirvöld hafa gengið hart fram gegn mannréttindasamtökum vegna gagnrýni þeirra á Vladimír Pútín forseta, og hafa verið gerðar húsleitir í höfuðstöðvum um eitt hundruð samtaka. Amnesty International og Memorial, elstu mannréttindasamtök Rússlands, eru þeirra á meðal.
Í yfirlýsingu frá Knopfler segir að hann harmi það að þurfa að aflýsa tónleikunum því hann hafi miklar mætur á landi og þjóð. Enn fremur vonast hann til þess að ástandið breytist fljótt, en hann var í hópi þeirra fjölmörgu listamanna er létu sér mál pönksveitarinnar Pussy Riot varða, þegar þrjár konur í hljómsveitinni voru dæmdar til fangelsisvistar í fyrra. Og þá lét Knopfler í sér heyra.
„Þessi dómur er lítillækkandi fyrir Rússland í augum heimsins. Ég fordæmi þessa fangelsisdóma og styð réttindi allra til mótmæla."