Fótbolti

Mark Alfreðs dugði næstum því til sigurs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason kom aftur inn í lið Heerenveen eftir meiðsli og skoraði mark liðsins í 1-1 jafntefli á útivelli á móti PEC Zwolle í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta en liðin eru áfram jöfn að stigum í 13. og 14. sæti.

Alfreð kom Heerenveen í 1-0 á fyrstu mínútu seinni hálfleiks þegar hann nýtti sér vel varnarmistök og það var farið að stefna í að það yrði sigurmarkið þegar Svíinn Denni Avdić jafnaði metin fyrir sex mínútum fyrir leikslok.

Alfreð og Filip Djuricic fengu fleiri færi til að skora og þá sérstaklega í fyrri hálfleiknum og þjálfarinn Marco van Basten var allt annað en sáttur með tvö töpuð stig í leikslok.

Alfreð hefur verið að glíma við ökklameiðsli og missti af fyrsta leik Heerenveen eftir jólafrí þegar liðið tapaði 0-1 á heimavelli á móti Heracles.

Alfreð hefur skorað í sex deildarleikjum í röð og þegar búinn að bæta félagsmet sitt frá því október-nóvember þar sem hann skoraði í fimm deildarleikjum í röð.

Alfreð hefur alls skorað 15 mörk í 16 deildarleikjum og er annar markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar ásamt Jozy Altidore hjá AZ Alkmaar en markahæstur er Wilfried Bony hjá Vitesse Arnhem með sextán mörk.

Mark Alfreðs má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Markið er skorað strax í upphafi myndbandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×