Evrópumeistarar Chelsea tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í knattspyrnu með 3-1 heimasigri á Basel. Enska liðið fer áfram 5-2 samanlagt.
Svisslendingarnir blésu til sóknar á Brúnni og fengu ágætis færi áður en fyrsta markið leit dagsins ljós. Mohamaed Salah kom þá gestunum yfir í viðbótartíma fyrri hálfleiks. Frábært veganesti inn í hálfleikinn fyrir Basel.
Lærisveinar Rafa Benitez tóku hins vegar öll völd á vellinum í síðari hálfleik. Fernando Torres og Victor Moses skoruðu sitt markið hvor með tveggja mínútna millibili snemma í hálfleiknum og þá var björninn svo gott sem unninn.
David Luis tryggði svo tveggja marka sigur Chelsea með glæsilegasta marki kvöldsins. Markið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Fleiri mörk voru ekki skoruð og Chelsea mætir Benfica í úrslitaleiknum í Amsterdam þann 15. maí.
