Innlent

Sonurinn fær ekki grænmetisfæði í leikskólanum

Valur Grettisson skrifar
Sigrún Jóelsdóttir, móðir drengsins sem fær ekki grænmetisfæði á leikskólanum.
Sigrún Jóelsdóttir, móðir drengsins sem fær ekki grænmetisfæði á leikskólanum.
„Þetta er skrítið viðhorf,“ segir Sigrún Jóelsdóttir, en þriggja ára sonur hennar fær ekki grænmetisfæði á leikskóla sínum í Kópavogi.

Deildarstjóri leikskólasviðs Kópavogsbæjar staðfestir að ekki sé komið til móts við foreldra sem óska eftir því að börnin sín fái grænmetisfæði að öðru leyti en að foreldrum er boðið að senda börnin með nesti í skólann.

„Ég er í fyrsta lagi hissa, enda þykir þetta ekki tiltökumál víðast annars staðar. Og er náttúrulega hluti af því að samþykkja ólíkan lífsstíl fólks,“ segir Sigrún um stefnu Kópavogsbæjar í þessum málum.

Sigrún brást við með því að senda bæjarfulltrúum Kópavogsbæjar bréf um þetta efni. Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi Næst besta flokksins, lagði því fram fyrirspurn á síðasta bæjarráðsfundi þar sem hann spurði hvort það væri rétt að leikskólastjórum væri ekki heimilt að bjóða grænmetisfæði ef foreldrar óskuðu eftir því sérstaklega, en það eru meðal annars svörin sem Sigrún hefur fengið.

Í samtali við deildarstjóra leikskólasviðs Kópavogsbæjar, Sesselju Hauksdóttur, kemur fram að samkvæmt handbók skólastjórnenda sé þetta frekar regla heldur en undantekning.

„Ef sérþarfir valda miklum tilkostnaði eða mikilli vinnu matráðs, þá skulu foreldar koma með mat að hluta til eða öllu leyti í skólann fyrir barnið,“ segir Sesselja. Hún segir að matargjald sé síðan endurskoðað í svona tilvikum.

Sesselja segir þó afar fátítt að foreldrar óski eftir því að börnin fái eingöngu grænmetisfæði: „þetta er allavega í fyrsta skiptið í 22 ár sem ég heyri af slíku,“ segir hún.

Sesselja útilokar þó ekki að foreldrar hafi komist að samkomulagi við einhverja leikskóla vegna fæðismála, það sé leikskólastjóra að meta slíkt í hvert skipti. Í handbók fyrir skólastjórnendur séu reglurnar þó nokkuð skýrar; foreldrar þurfa að koma með matinn að heiman.

„Þetta er furðuleg stefna sveitarfélags,“ segir Sigvaldi Ástríðarson, formaður Samtaka grænmetisæta, en hann segir stjórn samtakanna munu koma mótmælum á framfæri við Kópavogsbæ á næstunni vegna málsins.

„Þetta sýnir auðvitað ákveðið skilningsleysi á aðstæðum grænmetisæta og það sem verra er þá fer sá skilningur þverrandi að auki,“ segir Sigvaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×