Innlent

Ný íslensk tækni: Hægt að koma í veg fyrir yfir 99% mistaka við lyfjagjöf

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ný íslensk tækni getur komið í veg fyrir yfir 99% af mistökum sem gerð eru við lyfjagjöf og þannig bjargað ótal mannslífum. Tæknin er þegar komin í notkun erlendis og von er til þess að íslenskir sjúklingar njóti góðs af henni.

Mistök við lyfjagjöf eru mjög algeng og leiða í verstu tilfellum til dauða, eins og hjá Pétri Péturssyni sem lést sjöunda janúar síðastliðinn eftir mistök við lyfjagjöf á hjúkrunarheimilinu Garðvangi.

Bandarísk rannsókn segir raunar 20% lyfja á sjúkrahúsum vitlaust gefin og samkvæmt hollenskri rannsókn eru yfir 80% líkur á að fólk á hjúkrunarheimilum verði fyrir lyfjamistökum ef það dvelst þar í eitt ár.

Ástandið er svipað hér á landi en vona má að það lagist með tilkomu tækis sem íslenskur læknir hefur hannað og þróað. MedEye er lyfjaskanni sem hjúkrunarfræðingur rennir lyfjum í gegnum rétt áður en þau eru gefin sjúklingum. Tækið greinir þau og ber saman við ávísuð lyf til að koma í veg fyrir mistök.

„MedEye notar tölvusjón. Það eru teknar mjög margar myndir og töflurnar eru skannaðar með lazer til að mæla þær mjög nákvæmlega, þannig að þetta vinnur fyrst og fremst með útlit; lit, stærð og lögun taflanna,“ segir Ívar Helgason, læknir og stofnandi Mint Solutions.

Árangurinn sem vænta má af tækinu fer eftir því hvaða lyf eru í notkun á viðkomandi heilbrigðisstofnun. „En það er hægt að koma í veg fyrir vel yfir 99% af mistökum eins og staðan er í dag,“ segir hann.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er stærsti fjárfestirinn í Mint Solutions og hefur Tækniþróunarsjóður stutt vel við fyrirtækið frá upphafi. Verið er að ganga frá stórri erlendri fjárfestingu en MedEye hefur verið í notkun í Hollandi í rúmt ár. Unnið er að uppsetningu tækisins á yfir þrjátíu spítölum í Evrópu. „Síðan erum við í viðræðum við keðju af hjúkrunarheimilum sem eru með 220 hjúkrunarheimili og rúmlega 20 þúsund rúm. Það er mjög spennandi verkefni.“

Þá hefur fyrirtækið átt í viðræðum við innlenda aðila og Ívar kveðst aðspurður vona að íslenskir sjúklingar njóti góðs af tækninni fljótlega.

Um tíu starfsmenn vinna nú hjá Mint Solutions en stefnt er að því að hafa þekkingarhluta fyrirtækisins áfram hér á landi og bæta við starfsfólki.


Tengdar fréttir

Lögreglu ekki tilkynnt um mistök við lyfjagjöf

Pétur Pétursson fékk tvítugfaldan skammt af morfínlyfinu Contalgin sem ætlaður var herbergisfélaga. Lögreglu var ekki tilkynnt um mistökin þrátt fyrir lagaskyldu.

Mannslát vegna mistaka: Skrýtið að móteitur hafi ekki verið notað

Læknir segir skrýtið að manni sem lést eftir mistök við lyfjagjöf á Garðvangi, hafi ekki verið gefið móteitur og prófessor segir ráðlegt að nota það, þrátt fyrir mögulega áhættu. Landlæknir lofar fjölskyldunni að málið verði skoðað af festu.

Lyf oft vitlaust gefin: "Ástæða til að hafa áhyggjur"

20% lyfja á sjúkrahúsum eru vitlaust gefin og yfir 80% líkur eru á að fólk verði fyrir lyfjamistökum ef það dvelst á hjúkrunarheimili í eitt ár, samkvæmt erlendum rannsóknum. Ástandið er svipað hér á landi og ástæða til að hafa áhyggjur, segir verkefnastjóri hjá embætti landlæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×