Íslenski boltinn

Ögmundur: Ætlar að verða markvörður númer eitt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ögmundur Kristinsson er leikmaður fimmtu umferðar að mati Fréttablaðsins,
Ögmundur Kristinsson er leikmaður fimmtu umferðar að mati Fréttablaðsins, Vísir/Daníel
Ögmundur Kristinsson, fyrirliði Fram, er leikmaður fimmtu umferðar Pepsi-deildar karla að mati Fréttablaðsins, en hann átti frábæran í marki Fram þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Breiðablik á gervigrasvellinum í Laugardal.

"Þetta er mjög góð og ánægjuleg viðurkenning," sagði Ögmundur í samtali við Fréttablaðið í gær.

"Það var nóg að gera í búrinu og ég gekk sáttur frá leiknum, þrátt fyrir að maður hefði verið ánægðari með þrjú stig heldur en eitt."

Fram situr í 9. sæti Pepsi-deildarinnar með fimm stig eftir fimm leiki. Ögmundur kveðst nokkuð sáttur með byrjun liðsins.

"Þetta er búið að ganga fínt. Þetta hafa verið miklar baráttuleikir eins og oft vill verða í þessum fyrstu umferðum. Við erum búnir að spila marga góða hálfleiki, en við höfum kannski ekki enn náð að spila tvo svoleiðis í einum og sama leiknum. Eini virkilega slaki leikurinn var á móti Val, þá sérstaklega seinni hálfleikurinn. Hinir leikirnir hafa gengið ágætlega og við verðum að halda áfram og safna fleiri stigum."

Ögmundur verður í íslenska landsliðinu sem mætir Austurríki og Eistlandi.Vísir/Daníel
Ögmundur var valinn í landsliðshópinn fyrir vináttuleikina gegn Austurríki og Eistlandi sem fara fram 30. maí og 4. júní næstkomandi. Markvörðurinn öflugi segir það mikinn heiður.

"Að fá kall í landsliðið er einn mesti heiður sem fótboltamanni getur hlotnast og ég er virkilega stoltur af því. Ég var í hópnum í leikjum í undankeppninni í fyrra, þannig ég þekki hópinn ágætlega."

En gerir Ögmundur sér vonir að fá að spila í þessum tveimur landsleikjum sem framundan eru?

"Maður vill alltaf spila leiki, hvort sem það er með lands- eða félagsliði og auðvitað vonast ég til að fá tækifæri, en ég læt Lars (Lagerback) og Heimi (Hallgrímsson) um að ákveða það.

"Maður byrjar að standa sig vel með sínu félagsliði og þegar það gengur vel, þá fær maður vonandi sæti í landsliðinu. Ég fer ekkert leynt með það að ég vil vera markmaður númer eitt hjá íslenska landsliðinu og fá að spila," sagði Ögmundur að lokum.


Tengdar fréttir

Lars og Heimir völdu fjóra nýliða

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfarar karla í fótbolta, tilkynntu á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag hópinn sem mætir Austurríki og Eistlandi í tveimur vináttulandsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×