Körfubolti

Fyrsti alvöru NBA-leikur Kobe í tíu mánuði er í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Vísir/Getty
Kobe Bryant verður í sviðsljósinu í kvöld þegar Los Angeles Lakers mætir Houston Rockets á fyrsta leikdeginum á nýju NBA-tímabili.

Þetta er fyrstu alvöru NBA-leikur Kobe Bryant í tíu mánuði eftir að meiðsli sendu hann mjög snemma í sumarfrí á síðasta tímabili. Kobe hefur ekki spilað NBA-leik síðan 17. desember 2013 og það var ennfremur aðeins einn af sex leikjum hans á öllu síðasta tímabili.

Kobe Bryant varð 36 ára gamall í ágúst og margir bíða því spenntir að sjá hvaða áhrif tvö stór meiðsli í röð hafa haft á þennan frábæra leikmann.

„Ég veit hvað ég geri á æfingum á hverjum degi þótt að þið sjáið það ekki. Liðsfélagarnir mínir sjá það en þið fáið vonandi að sjá það í leikjunum," sagði Kobe Bryant við blaðamenn en hann skoraði 26,6 stig að meðaltali í síðustu þremur leikjum Lakers á undirbúningstímabilinu.

Byron Scott, þjálfari Los Angeles Lakers, býst við því að Kobe spili í kringum 30 til 40 mínútur í leik og hann hefur ekki áhyggjur af því að spila Bryant tvo daga í röð.  

Kobe Bryant spilar með gerbreyttu Lakers-liði í kvöld. Pau Gasol fór til Chicago Bulls og Steve Nash verður ekkert með vegna bakmeiðsla. Bakvörðurinn Nick Young verður ekkert með fyrr en í desember og framherjarnir Ryan Kelly (aftan í læri) og  Xavier Henry (hné, bak) og bakvörðurinn Wayne Ellington (heilahristingur) eru ekki klárir í slaginn í kvöld.

Efasemdir spekinganna fara ekkert framhjá Kobe Bryant en hann ætlar að afsanna hrakspárnar inn á vellinum og fyrsta sýning er á móti Houston Rockets í kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×