Viðskipti innlent

Staða peningamála stærsta hindrun alþjóðlegrar starfsemi

Samúel Karl Ólason skrifar
Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands.
Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands. Vísir_Fanney Birna
Formaður Viðskiptaráðs Hreggviður Jónsson, hélt fyrstu ræðu Víðskiptaþings Viðskiptaráðs Íslands. Viðfangsefni fundarins er uppbygging alþjóðageirans á Íslandi. Í fyrsta sinn er nú uppselt á þingið og Hreggviður sagði það vonandi vera til marks um batnandi tíma.

Í ræðu sinni ræddi hann uppbyggingu alþjóðageirans á Íslandi og hvernig hægt væri að tryggja að Íslendingar njóti enn frekar þeirra lífskjarabóta sem aukin utanríkisviðskipti og alþjóðavæðing geti boðið upp á.

Hann sagði þær spurningar ekki snúa eingöngu að efnahagslegum ávinningi heldur einnih þeirri samfélagsmynd sem við viljum byggja til framtíðar. „Fjölbreytt atvinnutækifæri, breitt vöru- og þjónustuúrval og menningarleg tengsl við umheiminn eru allt þættir sem gera Ísland að ákjósanlegri stað til að búa á. Það er hið raunverulega viðfangsefni fundarins í dag,“ sagði Hreggviður.

Hreggviður sagði stöðu peningamála vera stærstu einstöku hindrun uppbyggingar alþjóðlegrar starfsemi á Íslandi. Að gjaldeyrishöft hamli vexti alþjóðlegra fyrirtækja á öllum stigum og þar með getu hagkerfisins til verðmætasköpunar.

Þá sagði hann sprota- og vaxtarfyrirtæki standa frammi fyrir heftu aðgengi að fjárfestum með nauðsynlega sérfræðiþekkingu og tengsl, stærri fyrirtækin missi af arðbærum fárfestingartækifærum utan landsteinanna, erfitt geti reynst að sannfæra erlenda aðila um að starfa á Íslandi vegna hafta á flutningi launatekna og stórar beinar erlendar fjárfestingar á Íslandi verði flóknari og síður arðbærar en ella.

„Svona mætti lengi telja enda ljóst að gríðarlegum tíma, orku og fjármunum er varið í úrlausnarefni sem engum verðmætum skila. Það er því afar brýnt að stjórnvöld leggi allt í sölurnar til að greiða fyrir afnámi hafta sem fyrst,“ sagði Hreggviður.

Hann sagði staðreyndina vera þá, að þótt gjaldeyrishöft hér á landi yrðu afnumin í náinni framtíð myndi alþjóðleg starfsemi á Íslandi eiga erfitt uppdráttar meðan ekki ríki traust gagnvart þeirri mynt sem hér sé við lýði.

„Ef horft er til sögunnar má færa sterk rök fyrir því að íslenska krónan og sá óstöðugleiki sem henni hefur fylgt sé meginorsök þess að alþjóðleg starfsemi hérlendis er ekki umfangsmeiri en raun ber vitni. Öllum er ljóst að stöðugleiki gengis, vaxtastig og fyrirsjáanleiki launaþróunar geta skilið á milli feigs og ófeigs í harðri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum.“

Þá sagði Hreggviður að núverandi stjórnvöld telji hagi Íslands betur borgið utan ESB og hafi lokað á tvíhliða upptöku evru. „Viðskiptaráð Íslands er ekki sammála nálgun stjórnvalda í þessu máli. Heppilegra hefði verið að ljúka aðildarviðræðum og fá þannig úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort samningsskilyrði gætu orðið ásættanleg, einkum hvað varðar sjávarútveginn.“

Þá sagðist hann vilja að stjórnvöld hefðu komið með skýrari svör um framtíðarstefnu í peningamálum í kjölfar stöðvunar á aðildarviðræðum. „Sem fyrsta skref teldi ég það lágmark að stjórnvöld settu fram opinbert markmið um að Ísland ætli sér að uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrir lok kjörtímabilsins. Þá ákvörðun má taka alveg óháð framvindu í ESB-málum.“

Áskoranir Íslands í peningamálum segir Hreggviður að þýði einungis eitt. Til að fyrirtæki sjái hag sínum best borgið hérlendis, þurfi aðrir þættir rekstrarumhverfisins að vera þeim mun hagfelldari. „Meðan höft eru við lýði verður seint hægt að jafna leikinn, en markvissar aðgerðir á öðrum sviðum leggja þó grunn að bjartari framtíðarmynd en blasir við fyrirtækjum í alþjóðlegri starfsemi í dag.“

„Stærsta tækifæri Íslendinga felst þó í uppbyggingu framúrskarandi mannauðs. Til að ráðast í markvissa sókn á alþjóðlegum mörkuðum þarf að leggja aukinn kraft í eflingu menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Án öflugs mannauðs og nýrrar þekkingar er til lítils að skapa hér hagfellt fjárfestingar- og rekstrarumhverfi.“

Því næst ræddi Hreggviður um menntamál á Íslandi og sagði þau alla tíð hafa verið ofarlega á baugi í starfsemi Viðskiptaráðs. Sagði hann ráðið hafa bent á ýmsar breytingar í menntamálum sem gætu aukið gæði menntunar og nýtingu þeirra fjármuna sem varið er til hennar.

Þar benti hann á að samanburður við önnur lönd sýni að Ísland sé eina landið innan OECD sem eyðir meiri fjármunum í hvern grunnskólanemenda en háskólanemenda. Einnig sagði hann að fækkun námsára á mennta- og grunnskólastigi væri skynsamleg aðgerð til betri nýtingar opinberra fjármuna samræmingar við það sem gengur og gerist í nágrannaríkjum okkar.

„Við höfum nokkuð góða mynd af hlutfallslegum styrkleikum Íslands í alþjóðlegu samhengi. Við höfum einnig ágætis hugmynd um hvaða aðgerðir væru til þess fallnar að efla alþjóðlega starfsemi á Íslandi. Á endanum er þetta fyrst og fremst spurning um viðhorf. Vilja Íslendingar byggja upp alþjóðlegt atvinnulíf með þeim óumflýjanlegu breytingum sem því fylgir?“

Hreggviður sagði afstöðu Íslendinga til alþjóðaviðskipta hafa í gegnum tíðina markast í alltof ríkum mæli af eiginhagsmunum. „Við viljum eiga greiðan aðgang að erlendum mörkuðum, en höfum ákaflega takmarkaðan áhuga á því að opna þær leiðir í báðar áttir.“

„Íslenskir stjórnmálamenn þurfa að sýna pólitískt þor til að opna hagkerfið og atvinnulífið á að hvetja til erlendrar samkeppni á sem flestum sviðum. Krafan um framsækni og alþjóðlega samkeppnishæfni verður ríkari, en við getum fyllilega staðið undir því. Íslendingar eiga ekki að óttast breytingar, heldur fagna þeim.“

„Ávinningurinn af opnara hagkerfi er ótvíræður og skapar grundvöll fyrir bætt lífskjör í landinu. Það er því von Viðskiptaráðs að Íslendingar sýni hugrekki og framsýni og marki sér þá stefnu að landið verði eins opið fyrir alþjóðlegum viðskiptum og frekast er unnt,“ sagði Hreggviður að endingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×