Erlent

Tímósjenkó hugsanlega laus úr fangelsi

VISIR/AFP
Úkraínska þingið samþykkti í gærkvöld að fella úr gildi lagaákvæði um refsingu við misbeitingu valds í embætti  og mun því fyrrverandi forsætisráðherra landsins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Úkraínu, Júlía Tímósjenkó, að öllum líkindum losna brátt úr haldi. Samþykktin er þó háð því að Viktor Janókóvitsj staðfesti lögin.

Þingið samþykkti að taka upp stjórnarskrá landsins frá árinu 2004 og takmarka þannig völd forsetans og veitir það einnig þinginu vald til að skipa forsætisráðherra.

Júlía var dæmd til sjö ára fangelsisvistar árið 2011 fyrir að hafa misbeitt valdi sínu þegar hún skrifaði undir samning við kaup á gasi frá Rússlandi árið 2009.

Dómurinn yfir henni hefur verið harðlega gagnrýndur og stjórnvöld sökuð um að misnota sér dómstólana til að koma höggi á andstæðing sinn.

Eitt af því sem mótmælendur í Kænugarði hafa krafist síðustu vikurnar er að Tímósjenkó verði sleppt úr haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×