Innlent

Hafa sýslað ýmislegt í verkfallinu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Strákarnir eru á því að verkfallið sé frekar glatað mál og telja að þetta komi sér illa fyrir marga nemendur, sérstaklega þá sem eru að útskrifast.
Strákarnir eru á því að verkfallið sé frekar glatað mál og telja að þetta komi sér illa fyrir marga nemendur, sérstaklega þá sem eru að útskrifast. VISIR/PJETUR
„Það er svolítil grunnskólastemning í þessu og það er allt í lagi í smá stund,“ sagði Benedikt Guðmundsson, 18 ára nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík.

Blaðamaður hitti Benedikt og félaga hans, þá Valtý Örn Kjartansson 16 ára og Þórð Jónsson 17 ára. Þeir eru eins og Benedikt einnig nemendur í MR.

Þeir hafa sýslað ýmislegt á þessum tveimur vikum sem verkfall framhaldsskólakennara hefur staðið.

„Ég hef verið að æfa íþróttir og fara í sumarbústað og „tjilla“,“ segir Þórður.

Valtýr hefur verið að vinna en líka gefið sér tíma til að hitta vini sína. „Þetta er alveg búið að vera skemmtilegt og maður hefur haft tíma til að sinna áhugamálm,“ sagði hann.

„Þetta er búið að vera frekar rólegt, ég hef farið á skíði og í bústað. Þetta er í raun mjög þægilegt en þetta verður kannski þreytt ef þetta fer að dragast á langinn,“ segir Benedikt.

Allir hafa þeir eitthvað mætt í skólann til að læra og reyna að fylgja námsáætlun.

Þeir eru þó á því að verkfallið sé frekar glatað mál og telja að þetta komi sér illa fyrir marga nemendur, sérstaklega þá sem eru að útskrifast. En auðvitað sé þetta líka slæmt fyrir kennara. Miðað við lengd náms kennaranna, séu launin líklega ekki nógu góð og því skilja þeir baráttu kennara vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×