„Það er ekki verið að finna upp neitt nýtt,“ segir Hafliði í samtali við Vísi. „Við erum hins vegar að nota allt það besta úr hinum pottunum í Reykjavík í þennan.“
Laugarsvæðið hefur verið stækkað svo um munar og búið er að setja upp nýja girðingu, byggja nýjan kjallara og geymslu fyrir laugarverði, auk þess sem kvennaklefinn hefur verið tekinn í gegn.
Hafliði segir þá fjóra potta sem fyrir voru vera á sínum stað en nýi potturinn er að hans sögn mjög stór. „Þetta er hrein viðbót og nýi potturinn er í rauninni tveir pottar saman. Þarna er vaðlaug, sambærileg þeirri í Grafarvogslaug, og svo stór, tvískiptur pottur sem er bæði nuddpottur og venjulegur.“

„Það stóð til að bíða með að taka karlaklefana í gegn en svo var ákveðið á fundi í borgarráði í morgun að bíða ekki lengur með það,“ segir Eva og munu endurbætur á karlaklefunum hefjast innan skamms. „Þetta er því gleðidagur fyrir Vesturbæjarlaug og alla sundiðkendur.“
Eva hélt stutta ræðu áður en hún vígði pottinn en stóru skærin voru ekki dregin á loft. „Nei, þetta er bara óformlegt, bara nokkur góð orð, enda best að tala sem minnst í svona góðu veðri og hleypa fólkinu bara sem fyrst í pottinn.“

Vesturbæjarlaugin er ekki hans hverfislaug en Dagur segir hana hafa skemmtilegan karakter. „Árbæjarlaugin er mitt uppáhald en þær eru allar æðislegar þó þær séu ólíkar.“
Hann segist reyna að fara sem oftast í sund enda sé það hollt fyrir líkama og sál. „Laugarnar í Reykjavík eru eitt það mesta lýðheilsuverkefni sem ég þekki og áhrif þeirra eru meiri en fólk gerir sér grein fyrir, bæði á líkama og geðheilsu.“