Íslenski boltinn

Uppbótartíminn: Facebook-lekinn og hártískan

Vísir/Valli
Fjórða umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu kláraðist í gær. Hverjir áttu góðan dag og hverjir áttu erfiðan dag? Hvað segir tölfræðin og hver var umræðan á Twitter? Vísir gerir hér upp umferðina á léttum nótum.

FH-ingar og Stjörnumenn eru í tveimur efstu sætum deildarinnar með tíu stig eftir fjóra leiki, bæði ósigruð. KR-ingar eru komnir með sex stig eftir nauman sigur suður með sjó og Fjölnismenn halda áfram sínu skriði. Basl er á Þórsurum sem eru enn stigalausir.

Umfjöllun og viðtöl úr öllum sex leikjum umferðarinnar:

FH - ÍBV 1-0

Víkingur - Fylkir 1-2

Valur - Fram 5-3

Þór - Stjarnan 3-4

Breiðablik - Fjölnir 2-2

Keflavík - KR 0-1

Vísir/Valli
Góð umferð fyrir ...

... Patrick Pedersen, Val

Danski framherjinn stimplaði sig rækilega inn í sínum fyrsta leik með Val eftir endurkomuna og skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik. Það er ekki af ástæðulausu að Valur eltist við hann í allan vetur enda skoraði hann fimm mörk í níu leikjum fyrir liðið á síðustu leiktíð. Kom lítið við sögu hjá liði sínu í 1. deildinni í Danmörku og þyrstir vafalítið í fleiri mörk.

... Óskar Örn Hauksson, KR

Skoraði gríðarlega mikilvægt sigurmark fyrir Íslandsmeistarana á síðustu stundu í Keflavík. Fjögur stig eftir fjóra leiki hefðu litið illa út fyrir meistarana en Óskar kom til bjargar með föstu skoti úr teignum sem söng í netinu. Hann hefur nú skorað sigurmarkið í báðum leikjunum sem KR hefur unnið í sumar og svo leiðist Njarðvíkingi nákvæmlega ekki neitt að afgreiða Keflavík.

... Atla Viðar Björnsson, FH

Ekki í hóp í fyrsta leik og ónotaður varamaður í tveimur næstu. Kemur inn á gegn ÍBV á 64. mínútu og skorar sigurmarkið á 95. mínútu í leik sem stefndi í jafntefli. Sýndi enn og aftur að fáir, ef hreinlega einhverjir, þurfi færri mínútur til að skora mörk. Það er mikill lúxus fyrir Heimi Guðjónsson að geta leyft sér að geyma gullskóinn á bekknum.

Vísir/Vilhelm
Erfið umferð fyrir ...

... Abel Dhaira, ÍBV

Markvörðurinn skrautlegi gerði hvað hann gat allan leikinn til að gefa FH mark með ævintýralegum úthlaupum. Hafnfirðingarnir nýttu þessu skógarhlaup hans ekki fyrr en í uppbótartíma en markið kom. Það var svo eflaust ekkert hressandi að sjá þjálfarann sinn segja hvað honum fannst um mistökin á Facebook fyrir alla að sjá, sama þó það hafi verið óvart.

... Ómar Friðriksson, Víkingi

Bakvörðurinn að norðan átti afskaplega dapran dag í tapleiknum gegn Fylki í Laugardalnum. Átti í basli allan klukkutímann sem hann spilaði og gaf svo sigurmarkið. Var kippt út af um leið og eftir leik viðurkenndi Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings, að til stóð að taka Ómar fyrr af velli.

... Guðmund Benediktsson, Breiðabliki

Gummi Ben gat eflaust ekki ímyndað sér að hann myndi taka við Blikum í þessari stöðu. Þeir verða í besta falli með fimm stig þegar Ólafur Kristjánsson hverfur á braut til Danmerkur og Gummi tekur við. Blikar gátu afsakað fyrstu tvo leikina enda að spila við tvö bestu lið landsins en eitt stig úr leikjum gegn Keflavík og Fjölni er tæplega ósættanlegt. Með hverjum leiknum sem illa fer verður erfiðara fyrir Guðmund að taka við.

Vísir/Stefán
Tölfræðin:

* Þetta er í fyrsta sinn sem FH-liðið er á toppnum eftir fjórar umferðir í þjálfaratíð Heimis Guðjónssonar þrátt fyrir að vera með 9 stig eða meira (af 12 mögulegum) í fimmta sinn frá og með sumrinu 2008. FH hefur á þessum tíma verið þrisvar sinnum í öðru sæti eftir fjórar umferðir.

* Eftir að það voru bara skoruð 2,3 mörk að meðaltali í leik í fyrstu þremur umferðunum var boðið upp á 24 mörk í sex leikjum fjórðu umferðar sem gerir 4,0 mörk að meðaltali í leik. Fimmtán af mörkunum komu samt í tveimur leikjum, 4-3 sigri Stjörnunnar á Þór fyrir norðan og 5-3 sigri Vals á Fram á Hlíðarenda.

* Fjölnismenn urðu aðeins áttundu nýliðarnir frá 1984 til þess að ná stig í fyrstu fjórum leikjum sínum. Sex af þessum sjö taplausu nýliðum í fyrstu fjórum leikjunum hafa endað í efri hluta deildarinnar um haustið en eitt liðanna, Þróttur 1998, féll.

* Þór hefur aldrei byrjað verr í efstu deild en Þórsarar geta huggað sig við það að fimm af síðustu sjö stigalausum liðum eftir fjórar umferðir hefur tekist að bjarga sér frá falli um haustið. Ólafsvíkur-Víkingar frá því í fyrra eru þó annað þeirra tveggja liða sem hafa fallið eftir stigaleysi í fyrstu fjórum leikjunum á síðustu tuttugu árum.

Vísir/Valli
Skemmtilegir punktar úr boltavaktinni:

Ingvi Þór Sæmundsson á Kópavogsvelli:

„Play That Funky Music með Wild Cherry ómar í hátalarakerfi Kópavogsvallar. Það er eins gott og hvað annað.“

Daníel Rúnarsson í Kaplakrika:

„Það áhugaverðasta sem gerst hefur síðustu mínúturnar er hvítur plastpoki sem fauk hérna um völlinn. Vonandi að leikmenn fari að veita pokanum smá samkeppni.“

Ólafur Haukur Tómasson á Þórsvelli:

„Meðlimir úr Mjölnismönnum dreifðu söngtextum og boðaður var hópsöngur. Allir rísa úr sæti og syngja poppaða útgáfu á Maístjörnunni. Afar spes þetta! Er þetta eitthvað sálfræðistríð hjá Þór?“

Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:

Patrick Pedersen, Val - 8

Hafsteinn Briem, Fram - 8

Guðmundur Karl Guðmundsson, Fjölni - 8

Óskar Örn Hauksson, KR - 8

Abel Dhaira, ÍBV - 2

Ómar Friðriksson, Víkingi - 2

Daði Ólafsson, Fylki - 3

Umræðan á Twitter #365Pepsi:

Mark umferðarinnar:

Pepsi-mörkin velja í hverjum þætti mark umferðarinnar og að þessu sinni var það Davíð Kristján Ólafsson úr Breiðabliki sem skoraði fallegasta markið. Ekki amalegt miðað við að Davíð var að spila sinn annan leik á Íslandsmóti.

Öll mörkin úr 4. umferðinni:

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×