Erlent

Átján ár slétt síðan 230 manns létust í flugslysi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brak í sjónum við Long Island 1996.
Brak í sjónum við Long Island 1996. Vísir/AFP
Þann 17. júlí 1996 hrapaði flugvél TWA 800 yfir Long Island á austurströnd Bandaríkjanna. Átján ár upp á dag eru því frá slysinu þar sem allir 230 innanborðs létu lífið.

Vélin var á leið sinni frá JFK-flugvellinum í New York til Parísar þegar hún sprakk. Upphaflega var talið að um hryðjuverk hefði verið að ræða og fjölmörg vitni stigu fram og sögðust hafa séð blossa eða flugskeyti sem stefndi á flugvélina áður en hún sprakk.

Eftir fjögurra ára rannsókn komst rannsóknarnefnd að þeirri niðurstöðu að eldsneytistankur hefði sprungið. Frásögn fyrrnefndra sjónarvotta reyndist óskýr og bar sögum ekki saman. Bandaríska alríkislögreglan fann engar vísbendingar um að um hryðjuverk hefði verið að ræða samkvæmt frétt USA Today.

Talið er að allir 295 farþegar flugvélar Malaysia Airlines á leið sinni til Kuala Lumpur frá Amsterdam séu látnir. Flugvélin hrapaði í Úkraínu nærri landamærunum við Rússland á fjórða tímanum í dag. Erlendir fjölmiðlar telja að hún hafi verið skotin niður.


Tengdar fréttir

Farþegaþota með 295 farþegum innanborðs hrapar í Úkraínu

Boeing-vél malasíska flugfélagsins Malaysian Airlines á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur var skotin niður á landamærum Úkraínu og Rússlands, samkvæmt heimildum Interfax. 295 farþegar voru um borð og eru allir taldir af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×