Innlent

Eiga 200 króna afgang eftir hádegismat í þinginu samkvæmt neysluviðmiði

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Þingmenn fá niðurgreiddar máltíðir en borga 550 krónur fyrir heitan mat.
Þingmenn fá niðurgreiddar máltíðir en borga 550 krónur fyrir heitan mat. Vísir / GVA
Þingmenn sem borða í mötuneyti Alþingis eiga um 200 krónur í afgang til að kaupa sér morgunmat og kvöldmat miðað við neysluviðmið sem fram koma í frumvarpi fjármálaráðuneytisins um breytingar á virðisaukaskatti. Máltíðin kostar 550 krónur til starfsmanna þingsins en samkvæmt viðmiðunum hefur hver einstaklingur í fjögurra manna fjölskyldu 750 krónur til ráðstöfunar til matarkaupa á dag.

Máltíðir í mötuneyti þingsins eru niðurgreiddar en raunverð máltíða er mjög misjafnt eftir því upp á hvað er boðið, eðli málsins samkvæmt. Ekki er hægt að fá upplýsingar um hvert raunvirði máltíða er af þeim sökum og því hversu mikið þingmennirnir spara sér á þessu fyrirkomulagi.

Gert er ráð fyrir talsvert hærri fjárhæðum séu þingmenn og aðrir ríkisstarfsmenn á ferðalagi. Á vefsíðu fjármálaráðuneytisins kemur fram að hluti af dagpeningagreiðslum ríkisins til starfsmanna sé 10.800 krónur fyrir fæði hvern heilan dag. Það jafngildir rúmlega þriggja daga matarkostnaði fjögurra  manna fjölskyldu samkvæmt sama ráðuneyti.


Tengdar fréttir

Ríkið segir 250 krónur duga fyrir máltíðinni

Gert er ráð fyrir að það kosti 745 krónur að fæða hvern einstakling á dag. Fjögurra manna fjölskylda verji 92 þúsund krónum í mat og drykk á mánuði. Þetta eru þær tölur sem liggja til grundvallar í frumvarpi um breytingar á virðisaukaskatti.

Þingið á að fara yfir neysluviðmiðin

Sigurður Ingi Jóhannsson segir augljóst að þingið sé akkúrat í þeirri stöðu að yfirfæra forsendur fyrir breytingum á virðisaukaskatti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×