Erlent

Þúsundir mótmæltu í Washington DC

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá mótmælunum í Washington.
Frá mótmælunum í Washington. Vísir/Getty
Þúsundir komu saman á laugardag í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC, og mótmæltu ofbeldi lögreglunnar, en nokkur tilvik hafa komið upp síðustu misseri þar sem lögreglumenn skutu óvopnaða blökkumenn til bana. Farið er fram á að löggjöfinni verði breytt svo sækja megi lögreglumennina til saka.

Michael Brown var skotinn til bana af lögreglumanni í Ferguson í Missouri í ágúst síðastliðnum. Í síðasta mánuði kom svo til mikilla óeirða víðs vegar um Bandaríkin þegar að kviðdómur ákvað að ákæra ekki lögreglumanninn sem skaut Brown til bana.

Ættingjar Browns voru viðstaddir mótmælin í Washington í gær og ávarpaði móðir hans fjöldann:

„Hvílíkur hafsjór af fólki. Ef þeir taka ekki eftir þessu og breyta einhverju, þá veit ég hreinlega ekki hvað við eigum að gera. Takk fyrir að styðja mig.“

Lögreglan í Washington var með mikinn viðbúnað en mótmælin fóru friðsamlega fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×