Innlent

Skráning í Reykjavíkurmaraþon hefur aldrei verið meiri

Atli Ísleifsson skrifar
Metfjöldi stefnir á þátttöku í maraþoni en 1.037 hafa nú skráð sig. Gamla þátttökumetið var sett í fyrra þegar 977 skráðu sig.
Metfjöldi stefnir á þátttöku í maraþoni en 1.037 hafa nú skráð sig. Gamla þátttökumetið var sett í fyrra þegar 977 skráðu sig. Vísir/Daníel
7.880 manns hafa nú skráð sig til þátttöku í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram fer 23. ágúst næstkomandi. Það er um 7 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra.

Metfjöldi stefnir á þátttöku í maraþoni en 1.037 hafa nú skráð sig, en gamla þátttökumetið var sett í fyrra þegar 977 skráðu sig.

Í fréttatilkynningu frá ÍBR og Reykjavíkurmaraþoni segir að 10 kílómetra vegalengdin sé sem fyrr vinsælasta vegalengdin, en rúmlega helmingur skráða þátttakenda stefnir á að hlaupa þá vegalengd eða 4.103. Þá er einnig hægt að skrá sig í hálft maraþon, 3 kílómetra skemmtiskokk, Latabæjarhlaup og boðhlaup þar sem tveir til fjórir skipta á milli sín maraþonvegalengdinni.

Skráðir erlendir þátttakendur eru nú rúmlega tvö þúsund og af sextíu mismunandi þjóðernum. Flestir erlendu þátttakendanna koma frá Bandaríkjunum, 468 manns, og næst flestir frá Bretlandi, 353. Þá eru skráðir Þjóðverjar 219 talsins, Kanadabúar 193 og Norðmenn 106.

Netskráningu í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka lýkur fimmtudaginn 21.ágúst kl. 13, en einnig verður hægt að skrá sig í hlaupið á skráningarhátíð í Laugardalshöll en þá er þátttökugjaldið hærra.

„Áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka fer fram á vefnum hlaupastyrkur.is. 2.506 hlauparar eru byrjaðir að safna áheitum á vefnum og hafa þegar safnast rúmlega 17 milljónir til góðra málefna en það er 7% hærri upphæð en búið var að safna á sama tíma í fyrra. Allir skráðir þátttakendur geta safnað áheitum til styrktar góðum málefnum á hlaupastyrkur.is en hægt er að velja á milli 155 mismunandi góðgerðafélaga,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×