Innlent

Netöryggissveitin til Ríkislögreglustjóra

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra um að netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar verði flutt til almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.

Frumvarpinu er ætlað að tryggja aukið öryggi á þessu sviði og tryggja forvarnir og vinnubrögð.

Innanríkisráðherra ákvað að gerð yrði sérstök úttekt á net- og upplýsingaöryggi fjarskipta í kjölfar þess alvarlega öryggisbrests sem varð vegna tölvuinnbrots hjá fjarskiptafyrirtækinu Vodafone aðfaranótt 30. nóvember 2013.

Var Páli Ásgrímssyni hdl., sem hefur sérhæft sig í samkeppnis- og fjarskiptarétti, falið verkefnið. Tilgangur úttektarinnar var að greina heildstætt stöðu ofangreindra öryggismála, þar með talið ábyrgð fjarskiptafyrirtækja, ábyrgð og eftirlit opinberra stofnana, þá helst Póst- og fjarskiptastofnunar, Persónuverndar og ríkislögreglustjóra, réttarstöðu neytenda og lagarammann og koma með ábendingar um hvernig tryggja megi net- og upplýsingaöryggi sem best. Þetta segir í fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.

Þar kemur einnig fram að niðurstaða úttektarinnar hafi verið sú að farsælast verði að færa netöryggissveitina, verkefni hennar og eftirlit til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, líkt og algengast er í nágrannalöndum okkar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×