Grétar Sigfinnur Sigurðarson mun skrifa undir nýjan tveggja ára samning við KR í kvöld en það staðfestir hann við Fótbolta.net.
Samningur hans við félagið rann nýverið út en hann segir að nýráðnir þjálfarar KR hafi lagt mikla áherslu á að halda honum.
„Þetta er klárlega það sem ég vildi. Ég vil spila með KR svo lengi sem ég get og þeir hafa áhuga,“ sagði Grétar Sigfinnur sem furðaði sig á því eftir tímabilið að hafa ekkert heyrt í KR.
„Ég fékk einhver símtöl [frá öðrum félögum] en ég vildi ekkert fara með það lengra fyrr en mín mál væru komin á hreint hjá KR.“
Grétar Sigfinnur er 32 ára gamall og uppalinn KR-ingur. Hann hefur einnig leikið með Val og Víking á ferlinum en hefur verið fastamaður í liði KR síðan 2008.
Grétar Sigfinnur verður áfram hjá KR

Tengdar fréttir

Grétar: Ekkert heyrt í KR
Vill halda áfram í KR en er opinn fyrir öllu.