Fótbolti

Harpa tryggði Íslandi sigur gegn Noregi á Algarve

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þóra B. Helgadóttir fór fyrir liðinu í sínum 100. landsleik.
Þóra B. Helgadóttir fór fyrir liðinu í sínum 100. landsleik. Mynd/KSÍ/HIlmar Þór Guðmundsson
Stelpurnar okkar eru komnar á blað á Algarve-mótinu í knattspyrnu en þær unnu silfurlið síðasta Evrópumóts, Noreg, 2-1, í dag.

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, gerði átta breytingar á liðinu frá tapinu gegn Þýskalandi en hann talaði um það fyrir mótið að margir leikmenn fái tækifæri á mótinu og verður rúllað á liðinu.

Markalaust var í hálfleik en eftir tvær mínútur í þeim síðari komst Ísland yfir, 1-0, þegar Mist Edvardsdóttir skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í sínum ellefta landsleik.

Þóra B. Helgadóttir, hinn margreyndi og magnaði markvörður Íslands, stóð vaktina í dag í sínum 100. landsleik en henni tókst því miður ekki að halda hreinu í tilefni dagsins.

Norðmenn jöfnuðu metin úr vítaspyrnu á 81. mínútu sem, samkvæmt lýsingu á Facebook-síðu KSÍ, var gegn gangi leiksins. Íslenska liðið var töluvert sterkari aðilinn í seinni hálfleik.

Yfirburðirnir skiluðu einu mark til viðbótar en það var markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, sem skoraði sigurmarkið fyrir Ísland á 85. mínútu.

Flottur sigur staðreynd á Algarve og Noregur nú búið að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu. Ísland leikur því væntanlega úrslitaleik um annað sætið í riðlinum gegn Kína á mánudaginn.

Fanndís Friðriksdóttir í baráttunni í dag.Mynd/KSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson

Tengdar fréttir

Þóra spilar 100. landsleikinn í dag

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna, gerir miklar breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn gegn Noregi á Algarve í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×