Menning

Sterkir karakterar í dívuhópnum

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Boudoir Hópurinn er eingöngu skipaður konum eins og nafnið bendir til, en Boudoir þýðir kvennadyngja eða búningsherbergi.
Boudoir Hópurinn er eingöngu skipaður konum eins og nafnið bendir til, en Boudoir þýðir kvennadyngja eða búningsherbergi.
„Þetta er ansi blandað prógramm,“ segir Kristín R. Sigurðardóttir, ein söngkvennanna í Boudoir, spurð um efnisskrá tónleikanna í Fella- og Hólakirkju á sunnudaginn. „Svona rjóminn af því sem við höfum verið að æfa í vetur. Við erum flestar einsöngvarar og tökum hver um sig eitt lag. Þau eru úr ýmsum áttum; úr söngleikjum, óperettum, óperum, eða jafnvel bara dægurlög. Kórlögin eru síðan alls konar skemmtilegar útsetningar á þekktum lögum og nokkrar þeirra eru eftir stjórnandann okkar, Julian Hewlett, auk þess sem við syngjum fimm lög eftir hann sjálfan.“



Kvennasönghópurinn Boudoir var stofnaður í haust sem leið af faglærðum söngkonum og konum sem einnig eru starfandi sem einsöngvarar. Spurð hvort það geti ekki verið erfitt að hafa svona margar dívur í einum kór fer Kristín að hlæja. „Þetta hefur verið ótrúlega gaman,“ segir hún. „Það eru náttúrulega sterkir karakterar í hópnum, en það gerir þetta bara enn skemmtilegra.“



Tónleikarnir í Fella- og Hólakirkju hefjast klukkan 17 á sunnudaginn en á morgun verður smáupphitun á Hlemmur Square þar sem flutt verða nokkur lög úr efnisskránni.

Stjórnandi kórsins er Julian Hewlett og Judith Thorbergsson leikur með á píanó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×