Stórstjarna Super Bowl-meistara Seattle Seahawks, hlauparinn Marshawn Lynch, lét ekki sjá sig er Barack Obama Bandaríkjaforseti tók á móti liðinu í Hvíta húsinu á miðvikudag.
Lynch er óhemju feiminn einstaklingur og mætir aldrei í viðtöl. Hann var sektaður síðasta vetur af NFL-deildinni fyrir að mæta aldrei í viðtöl.
Þar sem það er ómögulegt að ná honum í viðtöl var haft samband við móður hans og hún spurð út í fjarveru hans í Hvíta húsinu.
"Hann sagðist bara ekki vilja fara. Hann gaf nú ekki upp neina sérstaka ástæðu fyrir því," sagði Delisa Lynch.
Þó svo Lynch hefði ekki haft fyrir því að mæta minntist forsetinn á hann í ræðu sinni.
"Mér þykir miður að Marshawn sé ekki hér með okkur því mig langaði að tjá honum hversu vel mér líkar við meðhöndlun hans á fjölmiðlum," sagði Obama og uppskar mikinn hlátur. "Ég vildi fá nokkur góð ráð frá honum."
