Fréttastofa hefur undanfarinn sólarhring gert árangurslausar tilraunir til að ná í Sóleyju vegna málsins. Hún er stödd í París á loftslagsráðstefnunni en skrifaði aðeins á Facebook-síðu sína vegna málsins.
Líf hefur ekkert viljað tjá sig um ágreining þeirra Sóleyjar og ástæðu þess að Sóley ákvað að fara í formanninn á kostnað hennar. Sagðist hún telja eðlilegt að Sóley útskýrði málið. Sóley segist ánægð með Fésbókarfærslu flokkssystur sinnar en ræðir ekkert um aðdragandann að skipun sinni sem nýs formanns á borgarstjórnarfundi í gærkvöldi.
Hún segist trúa því að þær tvær geti unnið saman að því að koma stefnumálum Vinstri grænna til leiðar í þágu Reykvíkinga. Fram hefur komið að hugmyndir eru uppi um að kalla til vinnusálfræðing til að leysa deilur flokksystranna. Tæp tvö ár eru síðan Sóley lagði Líf í oddvitaslag með eins atkvæðismun, 153-152.
Eins og Vísir hefur þegar fjallað um eru skiptar skoðanir um ákvörðun Sóleyjar innan flokksins og raunar utan hans einnig eins og má ráða af atkvæðagreiðslu í borgarstjórn í gærkvöldi þar sem sex borgarfulltrúar sátu hjá. Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, var upplýst um ákvörðun Sóleyjar en vill ekki tjá sig að öðru leyti um málið í fjölmiðlum.