Innlent

Telur best að upplýsa ekki um aðdraganda þess að hún fór í formanninn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sóley og Líf fyrir forval VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014.
Sóley og Líf fyrir forval VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014. Vísir/Þorbjörn Þórðarson
Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar og nýskipaður formaður Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, segist skilja að fólk vilji fá útskýringar á því hvers vegna hún ákvað að ýta Líf Magnuedóttur, flokkssystur sinni úr röðum Vinstri grænna, til hliðar og taka við formannsstöðu í mannréttindaráði.

Fréttastofa hefur undanfarinn sólarhring gert árangurslausar tilraunir til að ná í Sóleyju vegna málsins. Hún er stödd í París á loftslagsráðstefnunni en skrifaði aðeins á Facebook-síðu sína vegna málsins.

Líf hefur ekkert viljað tjá sig um ágreining þeirra Sóleyjar og ástæðu þess að Sóley ákvað að fara í formanninn á kostnað hennar. Sagðist hún telja eðlilegt að Sóley útskýrði málið. Sóley segist ánægð með Fésbókarfærslu flokkssystur sinnar en ræðir ekkert um aðdragandann að skipun sinni sem nýs formanns á borgarstjórnarfundi í gærkvöldi.

„(Ég)  trúi því að best sé fyrir okkur Líf að vinna upp traust og gott samstarf án þess að tíunda frekar aðdraganda eða ágreining sem hefur átt sér stað okkar á milli,“ segir Sóley í sinni yfirlýsingu.

Hún segist trúa því að þær tvær geti unnið saman að því að koma stefnumálum Vinstri grænna til leiðar í þágu Reykvíkinga. Fram hefur komið að hugmyndir eru uppi um að kalla til vinnusálfræðing til að leysa deilur flokksystranna. Tæp tvö ár eru síðan Sóley lagði Líf í oddvitaslag með eins atkvæðismun, 153-152.

Eins og Vísir hefur þegar fjallað um eru skiptar skoðanir um ákvörðun Sóleyjar innan flokksins og raunar utan hans einnig eins og má ráða af atkvæðagreiðslu í borgarstjórn í gærkvöldi þar sem sex borgarfulltrúar sátu hjá. Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, var upplýst um ákvörðun Sóleyjar en vill ekki tjá sig að öðru leyti um málið í fjölmiðlum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×