Erlent

Þingkosningar í Finnlandi: Kannanir benda til sigurs Miðflokksins

Atli Ísleifsson skrifar
Alexander Stubb forsætisráðherra (til vinstri) og Juha Sipilä, formaður Miðflokksins (til hægri).
Alexander Stubb forsætisráðherra (til vinstri) og Juha Sipilä, formaður Miðflokksins (til hægri). Vísir/AFP
Skoðanakannanir benda til þess að Miðflokkurinn muni bera sigur úr býtum í þingkosningunum sem fram fara í Finnlandi á sunnudag.

Blaðið Helsingin Sanomat birti fyrr í vikunni niðurstöður skoðanakönnunar þar sem stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Miðflokkurinn, mælist með 23 prósenta fylgi. Jafnaðarmannaflokkurinn og Þjóðarbandalagsflokkur Alexanders Stubb forsætisráðherra fá báðir sautján prósenta fylgi í könnuninni.

Þjóðernisflokkurinn Sannir Finnar, sem hlaut nítján prósenta fylgi í kosningunum 2011, mælist með sextán prósenta fylgi í könnun Helsingin Sanomat. Vinstriflokkurinn og Græningjar mælast báðir með rúmlega átta prósent, Sænski þjóðarflokkurinn með tæp fimm og Kristilegir demókratar tæp fjögur prósent.

Hlutfall þeirra sem segjast ekki vissir um hvaða flokk þeir muni kjósa er stór eða um fjörutíu prósent.

Um milljón manns, eða um fjórðungur kosningabærra manna, hafa þegar greitt atkvæði utan kjörfundar.

Fimm flokkar mynda nú ríkisstjórn í Finnlandi, eða Þjóðarbandalagsflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn, Græningjar, Sænski þjóðarflokkurinn og Kristilegir demókratar.

Juha Sipilä er formaður Miðflokksins sem nú mælist stærstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×