Erlent

Ríkisstjórn Egypta segir óvænt af sér

Bjarki Ármannsson skrifar
Ibrahim Mahlab, fráfarandi forsætisráðherra Egyptalands.
Ibrahim Mahlab, fráfarandi forsætisráðherra Egyptalands. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Egyptalands hefur sagt af sér og olíumálaráðherra landsins hefur verið falið það verkefni að mynda nýja stjórn á næstu vikunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta landsins.

Engin ástæða er gefin fyrir afsögninni en að því er breska ríkisútvarpið greinir frá er talið að hreinsa eigi til í stjórninni í kjölfar þess að landbúðarráðherra Egypta var handtekinn síðastliðinn mánudag grunaður um spillingu. Ráðherrann, Salah Helal, er sakaður um að hafa tekið við mútum frá viðskiptajöfrum sem vildu komast yfir lóðir ríkisins á ólögmætan hátt. Helal sagði af sér fyrr í vikunni.

Í tilkynningunni segir að Ibrahim Mahlab, forsætisráðherra Egypta, hafi skilað afsagnarbréfi stjórnarinnar til forsetans, Abdul Fattah al-Sisi. Sisi hefur heitið því að berjast gegn spillingu í forsetatíð sinni.

Skemmst er að minnast þess að ríkisstjórn landsins sagði einnig óvænt af sér í fyrra, en mikill órói hefur ríkt í egypskum stjórnmálum frá því að Múhameð Morsí forseta var steypt af stóli árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×