Erlent

Egyptar biðjast afsökunar á dauða mexíkóskra ferðamanna

Bjarki Ármannsson skrifar
Ibrahim Mahlab, forsætisráðherra Egypta, hringdi sérstaklega í sendiherra Mexíkóa í gær til að biðjast afsökunar.
Ibrahim Mahlab, forsætisráðherra Egypta, hringdi sérstaklega í sendiherra Mexíkóa í gær til að biðjast afsökunar. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Egyptalands baðst í gær opinberlega afsökunar á því að hafa fyrir slysni grandað tólf almennum borgurum í sprengjuárás á sunnudag. Öryggissveitir skutu þá sprengju að hópi bifreiða í eyðimörkinni í þeirri trú að þar væru hryðjuverkamenn á ferð. 

Meðal hinna látnu voru tólf mexíkóskir ferðamenn. Forsætisráðherra Egypta hringdi sérstaklega í sendiherra Mexíkóa í gær til að biðjast afsökunar. Innanríkisráðuneyti Egyptalands heldur því fram að hópurinn hafi ferðast inn á bannsvæði en fulltrúar ferðaþjónustunnar sem skipulagði ferðina þvertaka fyrir það.

Í samtali við breska ríkisútvarpið segir formaður sambands egypskra ferðaþjónustuaðila að hópurinn hafi verið í fylgd lögreglu og að hann hafi keyrt í gegnum margar eftirlitsstöðvar áður en ráðist var á hann.

Öryggissveitirnar sem skutu sprengjunni voru að eltast við íslamska uppreisnarmenn í eyðimörkinni sem liggur að landamærum Egyptalands og Líbíu.

Forseti Mexíkó hefur kallað eftir því að atvikið verði rannsakað í þaula og komist verði til botns í því hvað gerðist í raun á sunnudaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×