Erlent

Háttsettur meðlimur Ku Klux Klan dæmdur til dauða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frazier Glenn Cross Jr, einnig þekktur sem Glenn Miller, í dómssal í Kansas
Frazier Glenn Cross Jr, einnig þekktur sem Glenn Miller, í dómssal í Kansas Vísir/EPA
Kviðdómur í Kansas hefur farið fram á að Frazier Glenn Cross verði tekinn af lífi fyrir að hafa orðið þremur að bana fyrir utan samkomuhús gyðinga á síðasta ári.

Cross, sem var háttsettur meðlimur í Ku Klux Klan, var fundinn sekur um að hafa skotið hinn fjórtán ára gamla Reat Underwood og afa hans William Corporon til bana fyrir utan Jewish Community Center of Greater Kansas City sem og Terri LaManno fyrir utan dvalarheimili gyðinga í bænum Overland Park í Kansas.

Kviðdómurinn dæmdi Cross einnig fyrir þrjár tillraunir til manndráps en við réttarhöldin sagði hinn 74 ára gamli kynþáttahatari að hann hafi skotið á fyrrnefnda einstaklinga vegna þess að hann taldi þá vera gyðinga. Erlendir miðlar greina þó frá því að enginn þeirra myrtu hafi verið gyðingur.

Cross varði sig sjálfur í réttarhöldunum og gekkst við öllum morðunum. „Gyðingar hafa of mikil völd og þá verður að stöðva,“ sagði Cross í dómssal og bætti við að hann teldi þá vera að menga hvíta kynstofninn. Hann segist hafa komist að því nokkrum dögum eftir morðin að enginn þeirra myrtu hafi þó verið gyðingur.

„Allt sem ég gerði var fyrir ykkur, fyrir börn ykkar, barnabörn og komandi kynslóðir,“ sagði Cross ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×