Erlent

Forseti Búrúndí snýr aftur til höfuðborgarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Mikil mótmæli hafa verið í landinu síðustu vikur eftir að Pierre Nkurunziza greindi frá því að hann hugðist bjóða sig fram til forseta þriðja kjörtímabilið í röð.
Mikil mótmæli hafa verið í landinu síðustu vikur eftir að Pierre Nkurunziza greindi frá því að hann hugðist bjóða sig fram til forseta þriðja kjörtímabilið í röð. Vísir/AFP
Pierre Nkurunziza, forseti Afríkuríkisins Búrúndí, hefur snúið aftur til höfuðborgarinnar Bujumbura í kjölfar misheppnaðrar valdatilraunar hershöfðingja í landinu.

Nkurunziza var staddur í Tansaníu þegar valdatilraunin var gerð. Mikil mótmæli hafa verið í landinu síðustu vikur eftir að forsetinn greindi frá því að hann hugðist bjóða sig fram til forseta þriðja kjörtímabilið í röð, en slíkt brýtur í bága við stjórnarskrá.

Í frétt BBC segir að Nkurunziza hafi komið aftur til höfuðborgarinnar í fylgd mikils fjölda manna þar sem stuðningsmenn hans tóku fagnandi á móti honum.

Búist er við að forsetinn ávarpi þjóð sína síðar í dag.

Talsmaður Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 105 þúsund manns hafi flúið land eftir að mótmæli brutust út í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×