Erlent

Foreldrar óbólusettra barna í Ástralíu gætu misst bætur

Atli Ísleifsson skrifar
Tony Abbott segist vilja herða reglurnar þannig að undanþágur yrðu einungis veittar fólki sem bólusetja ekki börnin sín af trúarlegum eða læknisfræðilegum ástæðum.
Tony Abbott segist vilja herða reglurnar þannig að undanþágur yrðu einungis veittar fólki sem bólusetja ekki börnin sín af trúarlegum eða læknisfræðilegum ástæðum. Vísir/AFP
Foreldrar í Ástralíu sem neita að bólusetja börn sín gætu misst bætur frá hinu opinbera samkvæmt nýju lagafrumvarpi ríkisstjórnar Tony Abbott forsætisráðherra.

Í frétt CBC News segir að foreldrar gætu misst allt að 15 þúsund ástralska dala í bætur á hvert barn, sem samsvarar um 1,5 milljón króna.

Samkvæmt núgildandi lögum geta foreldrar með óbólusett börn fengið barnabætur og aðrar bætur ef þau hafa persónulega, trúarlega, eða „heimspekilega“ ástæðu til að sleppa bólusetningu.

Abbott segist nú vilja herða reglurnar þannig að undanþágur yrðu einungis veittar fólki sem bólusetja ekki börnin sín af trúarlegum eða læknisfræðilegum ástæðum. „Þetta er mikilvægt lýðheilsumál og mikilvæg aðgerð til að halda börnum okkar og fjölskyldum eins öruggum og hægt er.“

Félagsmálaráðherrann Scott Morrison segist búast við að einungis örfáar fjölskyldur fái undanþágur samkvæmt nýjum reglum.


Tengdar fréttir

Bólusetning hefði bjargað

Kona, sem missti rúmlega eins árs son sinn úr mislingum fyrir tæplega fimmtíu árum síðan, segir ótrúlegt að fólk nýti sér ekki þau úrræði sem nútímalæknavísindi bjóða uppá. Hún telur öruggt að bólusetning gegn mislingum hefði bjargað lífi sonar hennar á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×