Erlent

Áður óþekktur frændi mannsins fannst

Samúel Karl Ólason skrifar
Ein beinagrind Homo naledi
Ein beinagrind Homo naledi Vísir/AFP
Steingervingar fimmtán meðlima nýrrar greinar á ættartré mannsins hafa fundist í helli í Suður-Afríku. Vísindamenn kynntu þessa uppgötvun á blaðamannafundi í dag. Um 1.500 bein fundust djúpt í helli falin í hluta hellisins sem erfitt er að komast að.

Tegundin hefur fengið nafnið Homo naledi, eftir hellinum þar sem beinin fundust.

Vísindamenn vita ekki hve gömul beinin eru í raun, en segja að þeim hafi líklega verið komið fyrir eftir andlát einstaklinganna sem um ræðir. Það þykir merkilegt, því hingað til hefur verið talið að slíkir helgisiðir hafi byrjað með Homo sapiens.

Svona er talið að Homo naledi hafi litið út.Vísir/AFP
Samkvæmt AFP fréttaveitunni fundust beinin fyrst árið 2013 í svokallaðri Vöggu mannkynsins, sem er í um 50 kílómetra fjarlægð frá borginni Johannesburg í Suður-Afríku.

Hendur og fætur Homo naledi þykja líkjast höndum og fótum okkar en búkurinn og höfuðið líkist fornfeðrum okkar. Heilar þeirra voru á stærð við appelsínur. Þeir voru um einn og hálfur metri á hæð og um 45 kíló að þyngd.

Tracy Kivell, sem tók þátt í rannsókn beinanna segir að hendur beinagrindanna gefi í skyn að Homo naledi hafi haft burði til að beita verkfærum og að þeir hafi líklega verið góðir að klifra.

Vagga mannkynsins er skammt frá Johannesburg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×