Erlent

Kafari baðst afsökunar

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Skipið Rainbow Warrior sökk í höfninni í Aukcland árið 1985.
Skipið Rainbow Warrior sökk í höfninni í Aukcland árið 1985. NordicPhotos/Getty
Jean-Luc Kister, kafari frönsku leyniþjónustunnar, baðst í gær afsökunar á árás á skipið Rainbow Warrior, flaggskip Grænfriðunga. Er þetta í fyrsta sinn sem Kister biðst opinberlega afsökunar á árásinni, sem átti sér stað þann 10. júlí árið 1984, en í árásinni lést portúgalski ljósmyndarinn Fernando Pereira.

Kister kom fram í sunnudagsþætti sjónvarpstöðvarinnar TVNZ og sagði hann markmið aðgerðanna ekki hafa verið að drepa neinn skipverja og að hann vildi biðja fjölskyldu Pereira, þá meðlimi Grænfriðunga sem um borð voru og nýsjálensku þjóðina afsökunar.

Grænfriðungar mótmæltu kjarnorkuvopnatilraunum Frakka á Mururoa-eyju í Suður-Kyrra­hafi og átti Rainbow Warrior að sigla til eyjunnar. Árásin átti sér stað í höfninni í Auckland á Nýja-Sjálandi eftir að Kister hafði komið tveimur sprengjum fyrir í skut skipsins, sem sökk samstundis.

„Við urðum að fylgja skipunum, við vorum hermenn,“ sagði Kister sem sagði árásina jafnframt hafa verið óréttláta.

Kister vann ásamt tólf manna teymi sem starfaði fyrir frönsku leyniþjónustuna DGSE og voru tveir starfsmenn leyniþjónustunnar sóttir til saka fyrir árásina, þeir Dominique Prieur og Alain Mafart, sem handteknir voru í Nýja-Sjálandi og dæmdir í tíu ára fangelsi. Þeir játuðu báðir glæpinn og sátu að endingu inni í tvö ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×