Erlent

Kyrkislanga banaði tveimur ungum bræðrum í Kanada

Atli Ísleifsson skrifar
Kyrkislanga. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Kyrkislanga. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Lögregla í New Brunswick í Kanada hefur ákært 38 ára karlmann fyrir glæpsamlegt gáleysi eftir að kyrkislanga í hans eigu kyrkti tvo unga drengi.

Í frétt Globe and Mail kemur fram að lögregla birt ákæruna á hendur Jean Claude Savoie í gær.

Bræðurnir Connor og Noah Barthe, fjögurra ára og sex ára, fundust látnir á heimili Savoie í Campbellton þann 5. ágúst 2013 þar sem þeir höfðu gist þá nóttina.

45 kílóa kyrkisslanga hafði þá sloppið úr glerbúri sínu, farið inn í loftræstirör sem hafði svo látið undan þunga slöngunnar þannig að hún komst inn í stofuna þar sem bræðurnir sváfu.

Lögregla segir drengina hafa látist af völdum köfnunar.

Savoie var handtekinn í Quebec þann 5. febrúar síðastliðinn og munu réttarhöld hefjast þann 27. þessa mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×