Erlent

Ágreiningur innan flokka orsakar ólgu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Nýr forsætisráðherra tók við völdum í Ástralíu í gær í fimmta sinn á átta árum þegar Malcolm Turnbull sigraði fráfarandi forsætisráðherra, Tony Abbott, í leiðtogakjöri Frjálslynda flokksins. Boðað var til leiðtogakjörs í kjölfar átaka innan flokksins síðustu mánuði auk þess sem fylgi hefur minnkað. Turnbull hlaut 54 atkvæði í kjörinu en Abbott 44.

Í þrjú af fimm skiptum sem skipt hefur verið um forsætisráðherra hefur ástæðan verið sú að leiðtogakjör hefur farið fram innan þess flokks sem fer með forsætisráðuneytið hverju sinni. Julia Gillard sigraði Kevin Rudd í leiðtogakjöri Verkamannaflokksins áður en hann hefndi sín í næsta leiðtogakjöri. Lækkandi fylgistölur voru meginástæða leiðtogakjörs í bæði skipti.

„Það er ótrúlegt að við höfum tvisvar sinnum séð forsætisráðherra hrökklast úr embætti á sínu fyrsta kjörtímabili. Þetta sýnir hversu mikil ólga er innan þessara stærstu flokka landsins,“ hefur fréttastofa Reuters eftir Rod Tiffen, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Sydney.

Abbott bakaði sér óvinsældir samflokksmanna vegna skorts á samráði og bannaði meðal annars þingmönnum sínum að kjósa með frumvarpi um að samkynja pör mættu giftast. Í febrúar síðastliðnum náði hann að sigra Luke Simpkins, sem skoraði á hann í leiðtogakjöri, en nú laut hann í lægra haldi.

„Þessi ríkisstjórn mun leggja áherslu á frelsi einstaklingsins og markaðarins,“ sagði Turnbull í gær. Áherslur hans eru sagðar frjálslyndari en fyrirrennarans. Hann er fylgjandi hjónavígslum samkynja para, stofnun ástralsks lýðveldis, aðskilnaði frá bresku krúnunni og hertum áherslum í umhverfismálum. Fjölmiðlar í Ástralíu varpa nú fram spurningunni hvort það dugi til að snúa við fylgi flokksins, sem mælist tíu prósentustigum lægra en hjá Verkamannaflokknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×