Erlent

Lögreglumennirnir verða með bleyjur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Páfinn heimsækir Filippseyjar í næstu viku. Búist er við að milljónir manna sæki útimessu sem hann heldur þann 18. janúar.
Páfinn heimsækir Filippseyjar í næstu viku. Búist er við að milljónir manna sæki útimessu sem hann heldur þann 18. janúar. Vísir/Getty
Lögreglumenn sem starfa í umferðardeild lögreglunnar í Manila, höfuðborgar Filippseyja, mega ekki fara á klósettið þegar þeir eru á vakt í næstu viku en Frans páfi heimsækir þá landið. Lögreglumennirnir þurfa því að vera með fullorðinsbleyjur.

Páfinn heimsækir Filippseyjar 15.-19. janúar næstkomandi en um 2.000 lögregluþjónar munu vera á götum Manila til að gæta öryggis hans á meðan á heimsókninni stendur. Að sögn lögreglustjórans í Manila, Francis Tolentino, hafa lögreglumennirnir tekið vel í að vera með bleyjurnar.

Næstkomandi föstudag munu 800 lögregluþjónar prófa að vera með bleyjur á vakt en þá fer fram 24 klukkustunda löng skrúðganga í borginni sem hundruðir þúsunda kristinna manna sækja.

Búist er við að milljónir manna munu safnast saman í Manila þegar páfinn heldur útimessu í Rizal Park 18. janúar. Ekki verða nógu mörg ferðaklósett til að sinna þeim mikla fjölda og hvetur lögreglustjórinn presta, nunnur, guðfræðinemendur og eldri borgara til að mæta líka með bleyjur í messuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×