Erlent

Segir fyrrum Spánarkonung vera föður sinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jóhannes Karl var konungur Spánar í 39 ár. Árið 2012 var tveimur faðernismálum gegn honum vísað frá dómi.
Jóhannes Karl var konungur Spánar í 39 ár. Árið 2012 var tveimur faðernismálum gegn honum vísað frá dómi.
Hæstiréttur Spánar hefur samþykkt að taka upp mál belgískrar konu sem segist vera óskilgetin dóttir fyrrum Spánarkonungs, Jóhanns Karls, en hann afsalaði sér krúnunni síðasta sumar.

Konan, Ingrid Sartiau, segir að móðir hennar hafi átt í ástarsambandi við konunginn á 7. áratug seinustu aldar en hann var þá þegar giftur og var krónprins.

Hægt er að taka málið fyrir núna þar sem Jóhann Karl missti friðhelgi sína þegar hann afsalaði sér krúnunni. Hann hefur 20 daga til að útskýra sína hlið málsins en svo gæti farið að hann þyrfti að mæta í faðernispróf. Ef að málið fer svo alla leið gæti fyrrum konungurinn þurft að gefa skýrslu í dómsal.

Talsmenn konungsfjölskyldunnar sögðu að þeir virtu sjálfstæði réttarins, en neituðu að tjá sig frekar um málið.

Tveimur faðernismálum gegn Jóhanni Karli var vísað frá árið 2012 á meðan hann naut enn friðhelgi. Hann var konungur í 39 ár og var vinsæll á meðal spænsku þjóðarinnar.

Vinsældir hans dvínuðu þó nokkuð seinustu árin þar sem mörg hneykslismál tengd konungsfjölskyldunni komu upp. Jóhann Karl þurfti meðal annars að biðja þjóð sína afsökunar þegar myndir náðust af honum á fílaveiðum í miðri fjármálakreppu Spánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×